„Tækifæri til skattlagningar á þá sem mest eiga eru allt í kringum okkur“

Bjartur Aðalbjörnsson, varaþingmaður frá Vopnafirði, gerði skattlagningu að umtalsefni í jómfrúarræði sinni á Alþingi í gær. Hann sagði þar auð safnast í vaxandi mæli á fárra hendur og skattkerfið væri kerfi til að jafna aðstæður fólks.

„Samfélagið hefur í auknum mæli verið sniðið að þeim sem meira eiga. Vasar þeirra ríku dýpka og þeir sem ekki vita aura sinna tal koma auðnum fyrir í buxnavösum afskekktra eyríkja, til þess eins að komast hjá sinni ábyrgð í samneyslunni,“ sagði Bjartur í ræðunni í gær.

Hann vísaði þar til skýrslu Oxfam-samtakanna um að 26 ríkustu einstaklingar heims eigi jafn miklar eignir og fátækari helmingur heimsbyggðarinnar. Hann sagði að grípa þyrfti til aðgerða til að koma í veg fyrir að sambærileg misskipting yrði á Íslandi.

„Árið 2016 runnu 60 milljarðar fjármagnstekna til 330 einstaklinga. Sá tekjuhæsti í þessum hópi þénaði 3 milljarða í fjármagnstekjum. Það tæki lágtekjumann mörg hundruð ár að vinna sér inn þessa upphæð.

Í skýrslunni er talað um að hinir ríkustu séu „undirskattlagðir“ og Bjartur sagði vísbendingar um að slík væri raunin einnig hérlendis.

„Hér er fjármagnstekjuskattur lægstur af Norðurlöndunum, aðeins 22% - miklu lægri en tekjuskattur einstaklinga. Bæði Oxfam og OECD tala fyrir hærri fjármagnstekjuskatti til að jafna samfélagið.

Og einnig eignaskatti, svipuðum auðlegðarskattinum, sem skilaði þegar mest lét 10 milljörðum í ríkissjóð. Tækifæri til skattlagningar á þá sem mest eiga eru allt í kringum okkur.“

Bjartur situr á Alþingi þessa vikuna í fjarveru Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Hann er 24 ára gamall og hefur síðustu ár starfað við kennslu í Vopnafjarðarskóla. Hann er einnig oddviti Samfylkingarinnar í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps en flokkurinn á þar tvo fulltrúa. Hann var síðasta vor yngsti oddviti framboðs í sveitastjórnarkosningunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar