„Það er sko kraftur í okkur“

„Við erum handviss um að HSK og Sunnlendingar skorist ekki undan og nái að gera enn betur,“ segir Örvar Jóhannsson, formaður Hugins, en perluð voru 1673 armbönd til stuðnings Krafti á Seyðisfirði um helgina.


Það voru Kraftur, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og Huginn á Seyðisfirði sem stóðu fyrir perluviðburðinum. Um var að ræða þriðja leikinn í Perlubikarnum, en hann hreppir það íþróttafélag og/eða bæjarfélag sem nær að perla sem flest armbönd á tilteknum tíma. Armböndin eru seld til stuðnings Krafti og sýna einnig samstöðu með íslenska fótboltaliðinu á HM.

Slógu met Eyjamanna
Austfirðingar náðu að slá Eyjamenn út en Austfirðingar perluðu 1673 armbönd. Eyjamenn höfðu áður perlað 1538 armbönd en eins og staðan er í dag er Perlubikarinn í höndum Akureyringa sem perluðu 2302 armbönd á fjórum tímum.

„Um 150 manns mættu á perluviðburðinn á Seyðisfirði og stóð fólkið sig eins og hetjur en reikna má að hver hafi þá perlað meira en 11 armbönd. Við slógum Vestmannaeyinga út og erum því í öðru sæti núna í Perlubikarnum og værum ábyggilega í því fyrsta ef við miðuðum við höfðatölu - það er sko kraftur í okkur. En það er dásamlegt að taka þátt í þessu verkefni og skorum við nú á HSK og Sunnlendinga að gera betur og ná Perlubikarnum til sín,“ segir Örvar.

Armböndin eru til sölu á vefsíðu Krafts, hjá Útilíf, Errea, Jóa Útherja og Ölveri og rennur allur ágóði þeirra til stuðnings Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar