„Það er rosalegur skortur á leiðsögumönnum“

Austurbrú er að fara af stað með tvennskonar leiðsögunám, annars vegar í staðarleiðsögn og hins vegar í svæðisleiðsögn.



„Við verðum með tvær leiðir í boði, annars vegar staðarleiðsögunám og hins vegar svæðisleiðsögunám,“ segir Hulda Guðnadóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Staðarleiðsögunámið er 80 klukkustunda námskeið og hentar vel fyrir þá sem vilja starfa við ferðaþjónustu og leiðsögn og taka þátt í vaxandi atvinnugrein. Um er að ræða blöndu af verk- og bóknámi og hentar öllum sem eru 20 ára og eldri, einkum þeim sem hafa stutta formlegai menntun.

„Með staðarleiðsögunáminu fær fólk grunninn að því að vera leiðsögumaður og kemst til dæmis í að leiðsegja farþegum skemmtiferðaskipa,“ segir Hulda.

Svæðisleiðsögunámið er lengra, fjarnám og staðnám í helgarlotum og gefur 22 einingar. Það er haldið í samvinnu við Leiðsöguskólann í Kópavogi ætlað þeim sem vilja starfa við almenna leiðsögn ferðamanna á Austurlandi. Viðkomandi verður að vera eldri en 21 árs, vera með góða tungumálakunnáttu og stúdentspróf eða sambærilegt próf.

„Þetta er hálft leiðsögumannanámið, þarna tekur þú allar kjarnagreinarnar og þarft aðeins að bæta við þig 17 einingum til þess að vera orðin fullgildur leiðsögumaður, þannig að þetta er góður kostur.“


Þetta verður alger sprengja

„Það er rosalegur skortur á leiðsögumönnum, þá vantar um allt land. Sjálf er ég leiðsögumaður og var um daginn beðin um að átta hringferðir bara hjá einu fyrirtæki, þannig að vöntunin er mikil

Það er mikil aukning ferðamanna eins og við vitum, ekki síður hér fyrir austan, bæði vegna þess að við erum að fá „Discover the world-fllugin“ til okkar og enn fleiri skemmtiferðaskip en síðasta sumar. Við finnum fyrir því að Austurland er inn, hér er ósnortin náttúra og við höfum fengið mikla kynningu erlendis – þannig að þetta verður alger sprengja og við erum hálfpartinn með hnút í maganum.

Okkur sárvantar fleiri til liðs við okkur og það er legið á fólki, sérstaklega kennurum sem eru heima yfir sumartímann og eru hálf þvingaðir til þess að leiðsegja. Það eru svo margir sem þora ekki, halda að þetta sé erfitt og rosa mikið mál, en það er það alls ekki, miklu auðveldara en margur heldur, svo er þetta bara svo rosalega skemmtilegt starf.“

Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Huldu gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.