„Þá er allt klárt áður en haldið er í fjallið“

Töluverðar umbætur hafa átt sér stað á skíðasvæðinu í Oddskarði sem opnað var um helgina í fyrsta skipti í vetur. Nýr snjótroðari hefur verið tekinn gagnið sem og aðgangshlið.

 

 

Ómar Skarphéðinsson, rekstrarstjóri skíðasvæðisins, segir að mikill munur sé að fá nýja troðarann, að hann sé mikið afl- og afkastameiri en sá sem fyrir var.

Aðgangskerfið nefnist Skidata og er sambærilegt því sem þekkist á helstu skíðasvæðum Evrópu. Viðskiptavinir fá kort sem hægt er að hlaða inn sem aðgangshliðið nemur þó svo það sé í vasa skíðafólks.

Rekstraraðilar Oddsskarðs telja kerfið byltingu í utanumhaldi gjaldtöku á skíðasvæðinu auk þess sem nýja kerfið veiti einnig góðar tölfræðiupplýsingar, svo sem dreifingu milli svæða, hvenær mesti straumurinn er og hvaðan gestir koma en allt gangast þetta í markaðsstarfi.

Ómar segir helstu breytinguna fyrir skíðafólk vera þá að nú verði hægt að kaupa ákveðinn klukkustundafjölda í stað þess að áður þurfti að kaupa heilan dag í senn. Einnig verði unnt að kaupa sig inn á sérstök svæði, til dæmis ef fullorðnir vilja vera á barnasvæðinu þá sé nú hægt að kaupa aðgang þar á sama verði og börn greiða.

Auk Oddskarðs mun Olís á Reyðarfirði koma til með að selja kort og áfyllingar. „Þetta er fyrirkomulag sem við ætlum að prófa í samstarfi við Olís á Reyðarfirði og kannski fleiri staði í framhaldinu. Þetta er ekki komið í gagnið en það gerist mjög bráðlega, en þá getur fólk komið við þar og keypt sér kort eða fyllt á – þá er allt klárt áður en haldið er í fjallið,“ segir Ómar.

Skíðasvæðið verður opið í dag frá 16:00-19:00 og svo aftur um helgina. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.