SVN gefur VA búnað til kennslu í kælitækni

Nýlega færði Síldarvinnslan (SVN) Verkmenntaskóla Austurlands (VA) búnað til kennslu í kælitækni að gjöf. Um er að ræða lekaleitartæki, vigt fyrir kælimiðla, vacumdælu, tæmingardælu og mælibretti.

Þetta kemur fram á vefsíðu SVN. Þar er rætt við þá Hafliða Hinriksson. deildarstjóra rafdeildar skólans og Arnar Guðmundsson, deildarstjóra málmdeildar, sem segja að tækin muni nýtast afar vel til kennslu á vélstjórnarbraut og vélvirkjabraut.

„Benda þeir á að þekking á sviði kælitækni sé sífellt að verða mikilvægari og því afar brýnt að skólinn geti þjálfað nemendur í notkun þess búnaðar sem almennt er nýttur á því sviði. Segja þeir að nýi búnaðurinn, sem nú bætist við þá tækjaeign sem fyrir var, geri skólanum kleift að veita haldgóða kennslu,“ segir á vefsíðunni.
 
Þeir Hafliði og Arnar vilja að fram komi að sá stuðningur sem fyrirtæki veiti skólanum til tækjakaupa sé ómetanlegur. Segja þeir að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sýni það svo sannarlega í verki að þau vilji að skólinn sé öflugur og geti veitt góða kennslu enda muni fyrirtækin njóta góðs af því þegar nemendurnir komi út á vinnumarkaðinn að námi loknu.

„Skólinn er afar þakklátur fyrir þá velvild sem hann nýtur og víst er að þeir 20 nemendur sem nú strax fá að njóta nýju tækjanna munu fá betri undirbúnig en ella fyrir sín framtíðarstörf,“ segja þeir Hafliði og Arnar.

Mynd: Hafliði Hinriksson og Arnar Guðmundsson við kennslubúnað
í kælitækni. Ljósmynd, Smári Geirsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.