Sverrir fékk þriðjung atkvæða: Austfirðingar tuktuðu mig til

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs verður ekki næsti formaður Alþýðusambands Íslands. Hann beið lægri hlut gegn mótframbjóðandanum Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, á þingi samtakanna í dag. Sverrir varaði forustumenn í hreyfingunni við að fara fram úr almennum félagsmönnum í framboðsræðu sinni í morgun.

Kosið var á þingi sambandsins í morgun. Sverrir Mar fékk 100 atkvæði eða 34,2% en Drífa 65,8%. Alls greiddu 293 atkvæði og var aðeins eitt atkvæði ógilt.

Í framboðsræðu sinni kallaði Sverrir eftir samstöðu í komandi kjarasamningum, bæði meðal félagsmanna og forustufólks sem hann sagði að þyrfti að hlusta vel á grasrótina. Hann virtist vara forustufólk við að fara framúr almennu félagsfólki í kröfum og áköllum um átök.

„Þótt sumir telji sig hafa leyst lífsgátuna er ekki víst að aðrir séu þeim sammála og þá er erfitt að búa til breiðfylkingu til að taka slaginn. Það er erfitt að fara í harðar vinnudeilur og slag fyrir málstað ef fólk upplifir hann ekki sem sinn eigin,“ sagði Sverrir.

Fólk vill ekki láta troða ofan í sig

Sverri rifjaði upp feril sinn þar sem hann var um tíma sjómaður á norskum bátum í Barentshafi áður en hann réði sig sem bílstjóra á Kárahnjúkum. Þar var hann nokkra mánuði uns hann var ráðinn framkvæmdastjóri AFLs í júlí 2005.

„Ég kom úr hörðum heimi þegar ég byrjaði hjá AFLi. Ég var þá óþolinmóður og reiður og vildi labba minn og segja fólki hvernig hlutirnir ættu að vera því sjómennskan hafði ekki vanið mig á neinar málamiðlanir.

Austfirðingarnir voru ekki lengi að tukta mig til. Árin hjá AFLi hafa kennt mér mikið, aðallega að taka tillit til skoðana annarra, að leggja mitt af mörkum til að samræma og ná samstöðu en ekki vaða yfir og troða skoðunum ofan í fólk. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ef það er gert of oft þynnist hópurinn að baki mönnum. Fólkið vill ekki láta troða ofan í sig og er ekki tilbúið í slag nema hann sé þeirra.

Það ættu allir sem veljast til forustu í verkalýðshreyfingunni að vera búnir að fara í gegnum þann skóla sem það er að halda tugi vinnustaðafunda til að fá fram vilja fólks í kröfugerðum, fara á sömu vinnustaði aftur til að kynna kröfugerð, aftur til að fá samþykkta verkfallsheimild og loks að kynna kjarasamning og fá hann samþykktan.“

Samstaðan fæst ekki með valdboði

Að undanförnu hefur komið upp ný kynslóð leiðtoga í hreyfingunni sem boðað hafa róttækari stefnu. Sverrir sagði mikilvægt að búa til grundvöll til að koma þessari róttækni í réttan farveg.

„Lykilatriðið er samband fólksins, ekki forustumannanna. Ef fólkið vill að við séum róttækt þá erum við róttæk.

Þær metnaðarfullu kröfur sem komnar eru fram fyrir kjaraviðræður eru vísbendingar um harðan vetur. Því er þörf á órofa samstöðu, sem ekki fæst með valdboði eða þvinguðum atkvæðagreiðslum heldur gagnkvæmri virðingu, sátt og samstöðu. Ég vil að við sameinumst um markmið um að vinna fólkinu okkar til heilla en látum ekki tæknileg atriði rugla okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.