Svartrotta fannst í sorphirðubíl á Egilsstöðum

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem greint er frá því að rotta hafi fundist við sorphirðu á Egilsstöðum en starfssvæði Heilbrigðiseftirlitsins hefur verið laust við rottur árum saman.


Rottan fannst síðdegis síðastliðinn mánudag í sorphirðubíl og tókst sorphirðumönnum að handsama hana lifandi. Að morgni næsta dags var Heilbrigðiseftirliti Austurlands tilkynnt um atvikið sem og meindýraeyði sem sá um að farga dýrinu.

Skarphéðinn Þórisson sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands skoðaði dýrið og greindi sem svartrottu. Karl Skírnisson hjá Háskóla Íslands staðfesti greininguna en um er að ræða tiltölulega ljóst afbrigði af svartrottu sem meðal annars er þekkt í Heimaey og hefur haldist við þar.

Með dyggri aðstoð starfsmanna Gámafélagsins og meindýraeyðis hafa ferðir sorphirðubílsins verið raktar til að reyna að finna út hvar rottan hefur komist í bílinn. Ein sorpgeymsla var skoðuð, en í henni voru ekki ummerki um að dýrið hafi hafst við þar.

Ekki er langt síðan tvær rottur fundust í skipasorpi við Mjóeyrarhöfn, en annars hefur starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Austurlands verið laust við rottur árum saman.

 

Mikilvægt að allir leggist á eitt


Heilbrigðiseftirlitið leggur áherslu á það í fréttatilkynningu sinni að mikilvægt sé að allir leggist á eitt til að tryggja að rottur nái ekki búsetu á Austurlandi að nýju:

„Þess vegna er lögð áhersla á eftirfarandi:

1) Finnist rotta eða dýr sem grunur er um að sé rotta, ber að tilkynna það sem fyrst til Heilbrigðiseftirlits og viðkomandi sveitarfélags. Ef hægt er að ná dýrinu, lifandi eða dauðu er mikilvægt að það sé gert til að unnt sé að tegundargreina það. Slíkt eykur líkur á að hægt sé að finna uppruna.

2) Engum er heimilt að taka villtar rottur eða rottuunga og halda sem gæludýr.

3) Sveitarfélög ættu að bera rottueitur í skólpbrunna til að tryggja að rottur geti ekki hafst við í fráveitukerfum. Það ætti að gera árlega að jafnaði og oftar á hafnarsvæðum þar sem mikil umferð skipa er, einkum frá svæðum sem eru þekkt fyrir að hafa rottur.“

 

Mynd: Wikipedia

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.