Strandblakvöllur á Vopnafirði: „Höfum engan áhuga á stríði við íbúana“

Oddviti Vopnafjarðarhrepps segir að rætt verði við íbúa í nágrenni fyrirhugaðs strandblakvallar áður en haldið verið áfram með framkvæmdirnar. Tækniatriði varð til þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál ógilti framkvæmdina.


Niðurstaða nefndarinnar var að hreppnum bæri að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir eigin verkum en það hafði ekki verið gert í þessu tilfelli.

Úrskurðurinn féll fyrir jól og voru viðbrögð hreppsnefndar þau að vísa málinu aftur til skipulags- og bygginganefndar. Hún staðfesti í þriðja skiptið samþykkt sína og benti í bókun á að ekki hefði verið gerð athugasemd við staðsetninguna.

Kynningin klúðraðist

Íbúar í nágrenni vallarins hafa í kvörtunum sínum lýst áhyggjum sínum af sandfoki úr vellinum, sem á að vera við hlið sparkvallarins rétt hjá skólanum og ónæði af boltum og fólki á ferð.

Þá gerðu þeir einnig athugasemdir við skort á samráði. „Það klúðraðist kynningin á þessu þannig þetta fór illa af stað,“ segir Eyjólfur Sigurðsson, oddviti Vopnafjarðarhrepps.

Íbúarnir eru enn ósáttir við framkvæmdina og hafa áhyggjur af því að haldið verði áfram með gerð vallarins án þess að þeir hafi nokkra aðkomu. Ummæli um að íbúar ættu ekki að hafa of mikil áhrif á ákvarðanir hreppsnefndar á síðasta fundi hennar fóru illa í þá.

Munu funda með fólkinu

Sveitarfélagið mun bæta úr og gefa út framkvæmdaleyfið í næstu tilraun. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst er ekki þörf á nýju kynningarferli. Íbúar geta hins vegar skotið málinu aftur til úrskurðarnefndarinnar enda hafi hún ekki tekið neina efnislega afstöðu til deilumálanna síðast.

Hreppsnefndin samþykkti að funda með nágrönnum og var sveitarstjóra falið að boða fundinn. „Ég held það sé nauðsynlegt að heyra rökin beint frá íbúunum. Við höfum engan áhuga á stríði við íbúana.

Við viljum hafa völlinn og sátta íbúa en það er erfitt,“ segir Eyjólfur. Hann leggur enn fremur áherslu á að síðast hafi verið lagt upp með hafa völlinn til reynslu í eitt ár.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.