„Stórt skref til bættrar þjónustu við hjartasjúklinga á Austurlandi“

„Með tilkomu nýs hjartaómtækis er stigið stórt skref til bættrar þjónustu við hjartasjúklinga á Austurlandi,“ segir Gizur Gottskálksson, hjartalæknir, um nýtt hjartaómtæki sem komið er í Umdæmissjúkrahúsið í Neskaupstað.


Síldarvinnslan í Neskaupstað gaf tækið eftir ábendingu frá Hollvinasamtaka sjúkrahússins. Hollvinasamtökin voru stofnuð árið 2000. Þá var einnig keyptur með aukabúnaður við tækið sem gefinn var af Alcoa Fjarðaáli.

„Þá stóð til að loka fæðingardeild sjúkrahússins og þá risum við upp, mótmæltum og stofnuðum samtökin í kjölfarið,“ segir formaðurinn, Sigurður Rúnar Ragnarsson. „Markmiðið er að bæta við tækjabúnað sjúkrahússins eftir bestu getu. Við leitum eftir stuðningi frá stórum fyrirtækjum sem eru aflögufær, en auk þess höfum við fengið styrki og framlög frá einstaklingum og svo árgjöld frá félagsmönnum. Við finnum fyrir miklu þakklæti og erum stolt af því að geta hjálpað til og sjúkrahúsið er stolt af því að geta bætt sína aðstöðu,“ segir Sigurður Rúnar. 


Gamla tækið var barn síns tíma
Gizur Gottskálksson er einn þeirra sérfræðinga sem er með reglulega móttöku á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað.

„Það er samdóma álit allra sem til þekkja að mjög vel hafi tekist til með val á tæki. Með tilkomu nýs hjartaómtækis er stigið stórt skref til bættrar þjónustu við hjartasjúklinga á Austurlandi. Gamla tækið var barn síns tíma og orðið gamalt og úrelt. Með nýju tæki opnast möguleikar til nánari mats á ástandi hjartans. Við það verður öll meðferð og allt eftirlit markvissara.Þar má nefna mat á afleiðingum háþrýstings, mat á ástandi sjúklinga meðkransæðasjúkdóm og nákvæmara mat á lokusjúkdómum.

Hjartaómskoðun gegnir í nútíma læknisfræði lykilhlutverki við greiningu og eftirlit hjartasjúkdóma. Hún er stundum kölluð „stetóskóp“ nútímans, tekur þar við hlutverki hlustunarpípunnar velþekktu. Með tilkomu þessa nýja tækis styrkist sú þjónusta sem hægt er veita í heimabyggð Austfirðinga og leggur grunn að frekari sókn til hagsbóta og hagræðis fyrir íbúanna. Sá tími er liðinn að allt þurfi að sækja út fyrir héraðið. Það er fyllsta ástæða að óska austfirðingum öllum til hamingju með þennan góða áfanga," segir Gizur.

Ljósmynd: Rúnar Snær Reynisson/RÚV. (Frá vinstri: Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, Sigurður Rúnar Ragnarsson, formaður Hollvinsamtakanna og Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofunar Austurlands. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.