Stórskipahöfn í Finnafirði gríðarlegt verkefni ef af verður

Sveitarfélögin Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð vinna nú að stofnun félaga til að halda utan um verkefni sem tengjast mögulegri stórskipahöfn í Finnafirði. Leitað er að fjárfestum og áhugasömum viðskiptavinum.


Á íbúafundi á Vopnafirði í janúar fór Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, yfir stöðu verkefnisins sem hefur verið unnið af sveitarfélögunum tveimur, íslenska ríkinu og hinu þýska Bremenport. Hann sagði mikið hafa gerst á því rúma ári síðan samstarfssamningur var endurnýjaður.

Í lok febrúar var síðan gengið frá samningi milli sveitarfélaganna tveggja um hvernig formlegu samstarfi þeirra skuli háttað. hvernig ákvörðunartaka skuli fara fram og hvernig farið skuli með skiptingu á mögulegum tekjum og kostnaði sem fellur til vegna verkefnisins.

Samningurinn tryggir að Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur koma fram sem eitt í samskiptum við þriðja aðila í verkefninu.

Minni áfangar

Búið er að mynda fjögurra manna starfshóp skipaðan oddvitum og sveitarstjórum. Þá á að stofna tvö hlutafélög hafnarsamlag og þróunarfélag í eigu sveitarfélaganna til að halda utan um verkefnið. Tveir lögfræðingar vinna fyrir sveitarfélögin, Stefán Geir Þórisson og Lúðvík Bergvinsson, fyrrum þingmaður. Lúðvík hefur verið falið að vera tengilliður við ríki og Bremenports gagnvart sveitarfélögunum og svarar hann fyrirspurnum í samráði við forsvarsmenn sveitarfélaganna.

Á fundinum í janúar sagði Ólafur Áki að sveitarfélögin ein og sér ráði ekki við þann kostnað sem hljótist af verkefninu. Mikill lögfræðikostnaður sé þegar kominn á og ekki náist til baka nema hluti hans.

Samningur er við Bremenports til ársins 2018 og sagði Ólafur Áki að áður en hann rennur út verði komin niðurstaða um hvort haldið verði áfram. Hann skýrði frá því að búið væri að minnka höfnina þannig að hún verði byggð upp í áföngum og sé ekki lengur jafn stór og fyrst var áætlað. Engu að síður sé um að ræða gríðarlegt verkefni ef af verði.

Efni frá Grænlandi

Meðal annars sé ætlað að allt efni til uppfyllinga komu úr námum á Grænlandi en þar í landi séu ekki innviðir til að nýta það efni sem fellur til við námavinnslu. Passa verði að rannsaka verkefnið þannig að ekki berist með efninu eitthvað sem ekki falli inn í íslenskt lífríki.

Fulltrúar á vegum verkefnisins hafa að undanförnu sótt kaupstefnur til að kanna áhuga skipafélaga á að nýta sér þjónustu í Finnafirði og hitta mögulega fjárfesta. Fulltrúar Bremenports eru næst væntanlegir til landsins í apríl, meðal annars til fundar við íslenska ríkið. Næstu íbúafundir á norðausturhorninu eru síðan ráðgerðir í maí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.