Stóraukin aðsókn í Vök vegna hitanna undanfarið

Aldrei áður hafa svo margir gestir heimsótt Vök Baths í Fellabæ það sem af er júnímánaðar en framkvæmdastjórinn þakkar það að stórum hluta hitabylgjunni sem austanlands hefur verið.

Fólk er gjarnt á að vilja kæla sig niður þegar hitastigið nær tilteknum hæðum alls staðar í heiminum og hið sama virðist gilda um ferðafólk á Egilsstöðum. Aðsókn í Vök verið með allra besta móti síðustu vikurnar og hún töluvert meiri en á sama tíma í fyrra og árið þar á undan.

Aðalheiður ,framkvæmdastjóri, segir engan vafa leika á að hitarnir síðustu vikur hafi aukið aðsóknina í ofanálag við mun fleiri skipafarþega en áður hefur verið en þangað eru ferðir með farþegar skemmtiferðaskipa bæði frá Seyðisfirði og Djúpavogi.

„Hitarnir hafa sannarlega mikil áhrif og við sjáum það glögglega á fjölda íslenskra gesta sem leggja leið sína hingað. Það er nokkuð áberandi mikill fjölda ferðalanga núna sem eru íslenskir í viðbót við enn meiri fjölda erlendra ferðamanna. Við njótum góðs af og ég held að þeir sem hingað koma geri það líka. Hitastigið í Urriðavatninu hefur verið kringum um fimmtán gráður og aldeilis kjörið að taka þar sprett og láta svo líða úr sér í heitu laugunum.“

Samkvæmt Veðurstofu Íslands mun draga úr þessum miklu hitum hér austanlands næstu dægrin þó áfram verði hlýtt eða kringum 15 stig fram að næstu helgi. Þá er gert ráð fyrir góðri rigningu á morgun þriðjudag og líkast til margir sem fagna því eftir mikla þurrka.

Þegar Austurfrétt bar að garði í Vök baths á föstudaginn var lofthitastigið 24 og sjálft Urriðavatnið um 15 stig. Mesti hiti í vatninu sjálfu síðan Vök hóf starfsemi var í hitabylgjunni 2021 þegar vatnið mældist 18 stiga heitt. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.