Ekki alls staðar hægt að plokka fyrir snjó

Á sunnudaginn kemur fer fram á landsvísu Stóri plokkdagurinn sem af gárungum er gjarnan kallað gönguferð með tilgang enda valsa áhugasamir þá um og hirða upp rusl samhliða heilsusamlegum göngutúr. Sú dagsetning gengur þó ekki upp alls staðar sökum snjóalaga og skafla á stöku stöðum.

Það er til að mynda raunin á Egilsstöðum og í Neskaupstað samkvæmt upplýsingum frá Auði Ingólfsdóttir, forseta Rótarýklúbbs Héraðsbúa, en það eru Rótarýsamtökin sem sjá um að skipuleggja Plokkdaginn um land allt. Samkvæmt upplýsingum frá Múlaþingi og Fjarðabyggð er þó áfram miðað við sunnudaginn kemur á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem mikill snjór stendur gerir fólki ekki erfitt fyrir.

Auður segir að á Héraði hafi verið ákveðið að færa daginn til 11. maí og það gert í góðri samvinnu við umhverfisfulltrúa Múlaþings.

„Það var samdóma álit okkar allra að betra væri að snjóa leysti aðeins frekar áður byrjað verður að plokka hér og þar. Hugmyndin okkar er þá að byrja klukkan 10 þann 11. næstkomandi í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, plokka til klukkan 12, áður en við gerum okkur glaðan dag með því að grilla pylsur og bjóða safa með. Það gerum svona dálítið til að ná til unga fólksins sem væri gaman að fá með út úr húsi til að týna með okkur. Við munum skaffa öllum poka svo fólk aðeins að koma með hanska til að taka þátt. Ruslinu skilum við svo frítt með aðstoð Múlaþings.“

Sem endranær er þeim tilmælum beint til áhugasamra plokkara að klæða sig eftir aðstæðum og nota öryggisvesti ef plokka skal meðfram fjölförnum vegum og götum.

Þó leysingar hafi verið töluverðar síðustu dægrin er töluvert af sköflum hér og þar í og við þéttbýlisstaði en slíkt gerir allt plokk vitaskuld töluvert flóknara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.