„Stór og fín síld á besta stað“

Skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hafa verið á síldveiðum þessa vikuna og er Börkur á leið í land með farm. Lítið er eftir af makrílkvótanum en nóg hefur virst af honum í hafinu.


„Börkur er á leið í land með rúm 800 tonn af síld sem veiddist 25-30 mílur út af Norðfjarðarflóa. Þetta er stór og fín síld sem veiddist á besta stað fyrir okkur,“ segir Jón Már Jónsson, yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni.

Skipum fyrirtækisins hefur verið beint á síld þar sem makrílvertíðin er að klárast. Lítill kvóti er orðinn eftir og sækja þarf orðið fiskinn langt.

Ástand makrílsstofnsins virðist hins vegar gott. Niðurstöður Niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna í júlí benda til að ekki hafi verið meiri makríl á norðurslóðum síðan 2014.

Þá endurskoðaði Alþjóðahafrannsóknaráðið nýverið ráðgjöf sína um veiðar ársins 2016 þar sem villa var í úrvinnslu nýliðunargagna. Ráðlagt aflamark fyrir árið 2016 var 667 þúsund tonn en verður 774 þúsund tonn og eykt því um 107 þúsund tonn. Veiðiráðgjöf næsta árs fyrir makríl og norsk-íslenska síld er væntanleg á næstu vikum.

„Við höfum vitað af makríl víða í sumar en hann hefur verið brellnari en oft þannig að fyrst þurfti að sækja hann langt,“ segir Jón Már.

Síldin hefur runnið út en verr hefur gengið að selja makrílinn. „Það gengur alveg að selja hann en verðin eru léleg miðað við það sem fengist ef hægt væri að selja til Rússlands og það tekur lengri tíma. Á móti gengur mjög vel að losna við síldina. Hún fer bara einn, tveir og þrír.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.