Stofna netverslun með vörur frá samfélagslega ábyrgum framleiðendum

Hjón í Neskaupstað hafa sett á fót vefverslunina Ethic.is sem selur vörur frá samfélagslega ábyrgum framleiðendum. Áhuginn kviknaði þegar þau fóru sjálf að leita sér eftir fötum frá slíkum framleiðendum.


„Okkur fannst ekki nógu mikið í boði á Íslandi og eftir að við fórum að skoða málin af alvöru ágerðist áhuginn,“ segir Matthías Haraldsson sem stendur að baki versluninni ásamt Hafrúnu Ósk Pálsdóttur.

Hann bendir á að fataiðnaðurinn sé í eðli sínu mengandi iðnaður. Með að kaupa vörur af samfélagslega ábyrgum framleiðendum er átt við framleiðendur sem borga sanngjörn laun, tryggja starfsmönnum sínum góðar vinnuaðstæður, huga að umhverfisvernd og svo framvegis.

Í kynningarefni eins fyrirtækisins er talað um að það telji fólkið sem framleiði skóna jafn mikilvægt og fólkið sem kaupi þá.

Matthías og Hafrún fóru að skoða málin og fundu birgja sem voru tilbúna að vera í samstarfi við þau. „Það er slatti af fyrirtækjum sem gefa sig út fyrir að sýna siðferðilega ábyrgð og gera það vel.“

Verslunin verður á netinu auk þess sem komið verður upp sölubásum við sérstök tilefni. Þau skoða möguleika á að taka samfélagslegu ábyrgðina alla leið, svo sem með umhverfisvænum umbúðum.

„Einn birgirinn sem við skiptum við gróðursetur tré fyrir hvern bol sem hann selur. Við ætlum að fylgja því eftir og gróðursetja í Viðfirði.“

Netverslunin verður á íslensku, að minnsta kosti fyrst um sinn. Matthías útilokar ekki að taka skrefið lengra. „Við erum með heildsöluumboð í Skandinavíu fyrir bandarískt skómerki sem við erum með. Það kemur vel til greina að skoða eitthvað síðar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.