Stjórnvöld hvött til að stórauka framlög til skógræktar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn á Djúpavogi fyrir stuttu en þar var ályktað um eflingu skógræktar á næstu fimm árum.

Um 120 félagsmenn úr aðildarfélögum Skógræktarfélags Íslands tóku þátt í fundinum. Samþykkt var ályktun um eflingu skógræktar þar sem stjórnvöld eru hvött til að auka skógrækt á ný í landinu. Þar segir að gróðursetning hafi dregist saman úr sex milljónum skógarplantna á ári 2007 niður í um þrjár milljónir Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands vill að markið verði sett á átta milljónir gróðursettra trjáplantna á ári næstu fimm árin.

Í ályktuninni eru stjórnvöld hvött til þess að stórauka framlög til skógræktar og vísað er til þingsályktunar sem samþykkt var samhljóða á Alþingi árið 2014 sem fjallaði m.a. um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar.

„Gróðursetning skógarplantna hefur dregist saman ár frá ári allt frá árinu 2007, þegar 6 milljónir skógarplantna voru gróðursettar, í 3 milljónir skógarplantna á ári. Þessi þróun er mikið áhyggjuefni og hefur ekki bara haft áhrif á gróðursetningu heldur einnig á skógarplöntuframleiðslu sem atvinnuveg, sem er að verða svo veikburða. Hætt er við að forsendur fyrir eðlilegu samkeppnisumhverfi á því sviði séu að bresta. Markmiðið er að á næstu árum verði stefnt að því að gróðursetja 8 milljónir skógarplantna á ári hverju,“ segir meðal annars í ályktuninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar