Stjórn SSA: Gagnslaust kerfi við stjórnun samgöngumála

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) vill að samgönguráðherra kalli stjórnir landshlutasamtaka og þingmenn um land allt á sinn fund hið fyrsta til að fara yfir verklag við stjórnun samgöngumál á næstu árum.


Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin sendi frá sér í gær í kjölfar þess að ljóst er að ekki verður hægt að standa við þau samgönguverkefni sem fyrirhuguð voru í fjórðungnum samkvæmt samgönguáætlun sem samþykkt var í haust.

Í ályktuninni segir að landsmenn hafi víða sýnt því skilning að dregið væri úr framkvæmdum í samgöngumálum í kjölfar hrunsins. Menn hafi síðan bundið vonir við að aftur yrði bætt í með samþykkt áætlunarinnar.

Við samþykkt fjárlaga fyrir áramót hafi verið ljóst að áætlunin var vanfjármögnuð. Ekki hafi verið ljóst hvernig ríkisstjórnin myndi bregðast við en enginn hafi átt von á að samgönguráðherra myndi, að því er virðist án nokkurs samráðs við þingheim, slá út af borðinu beinlínis lífsnauðsynlegar framkvæmdir, meðal annars á Austurlandi.

Fari fram sem horfi verður þetta þriðja árið í röð þar sem ekkert fé rennur til nýframkvæmda í fjórðungnum. Ekki sé hægt að benda á Norðfjarðargöng þar sem gagnagerð eigi ekki að taka fjármagn af öðrum vegabótum.

Mat stjórnar SSA er að það kerfi sem tíðkast hafi við stjórn samgöngumála sé gagnslaust.

„Tryggja verður jafnræði og öryggi íbúa um land allt og því hafnar stjórn SSA því alfarið að ekki sé unnið eftir þeirri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og skorar á stjórnvöld að tryggja þá fjármuni sem til þarf svo það verði.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.