Stillt upp hjá Samfylkingunni

Stillt verður upp á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar. Annar þingmanna flokksins hefur ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri.

Nýtt kjördæmisráð flokksins í kjördæminu var kosið á fundi í lok febrúar. Á fundinum var jafnframt ákveðið að notast við uppstillingaraðferðina en ráðið gegnir einnig hlutverki uppstillingarnefndar.

Leitað er núna eftir frambjóðendum á listann og er tekið við framboðum og ábendingum um frambjóðendur út febrúar.

Unnar Jónsson, formaður kjördæmisráðs, segir að eftir það verði gengið í að stilla upp á listann. Hann verði síðan borinn undir fund kjördæmisráðs til samþykktar, væntanlega seinni hluta mars.

Samfylkingin á tvo þingmenn í kjördæminu, formanninn Loga Einarsson og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur. Logi var kjördæmakjörinn í síðustu kosningum en Albertína landskjörin.

Albertína hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér áfram en hún skipaði annað sæti listans fyrir fjórum árum. Hún á von á sínu fyrsta barni og segist í tilkynningu hafa tekið þá ákvörðun eftir mikla umhugsun að einbeita sér að móðurhlutverkinu. Þingmannsstarfið sé ekki sérstaklega fjölskylduvænt auk þess sem hún sakni þess að geta ekki verið meira á Akureyri.

„Þetta er ekki auðveld ákvörðun en ég held hún sé sú eina rétta fyrir mig og fjölskylduna á þessum tíma. Ég óska auðvitað félögum mínum í Samfylkingunni alls hins besta og mun áfram leggja mitt að mörkum til að Samfylkingin nái góðum árangri í kosningunum í haust, enda trúi ég því að jafnaðarstefnan sé lykillinn að þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar