Steingrímur J.: Sjávarútvegurinn hefur burði til að leggja meira af mörkum til samfélagsins

steingrimur_j_sigfusson_neskmai12.jpg
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin geti lagt meira til íslensks samfélags en þau gera í dag. Nýtt frumvarp um stjórnun fiskveiða og veiðileyfagjald sé málamiðlunartillaga fallin til að binda enda á áralangar þrætur sem aldrei verði leystar með gífuryrðum eða auglýsingum.

„Það hefur verið góðæri í íslenskum sjávarútvegi í fjögur ár og hann hefur burði til að leggja meira af mörkum fyrir aðgang að auðlindinni. Við höfum þörf fyrir þann pening,“ sagði Steingrímur á opnum borgarafundi um sjávarútvegsmál í Neskaupstað á þriðjudagskvöld.

Hann nefndi að sjávarútvegsfyrirtækin högnuðust á lágu gengi krónunnar en það geri aðrir landsmenn sannarlega ekki. „Lágt gengi hefur áhrif á aðra landsmenn sem borga fyrir það með skertum lífskjörum.“

Í framsöguræðu sinni rakti Steingrímur að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja hefðu lækkað umtalsvert undanfarin ár á sama tíma og afgangsfé úr rekstri og eigið fé hefðu aukist. Með frumvarpinu sé lögð áhersla á að sjávarauðlindin verði ævarandi sameign þjóðarinnar.

Skuldir vegna fjárfestinga í öðrum greinum

Ráðherrann notaði tækifærið til að gagnrýna úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte sem spáir fjöldagjaldþroti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja verði frumvarpið samþykkt. Fyrirtækið hafi breytt forsendum sínum úr afkomuspá þeirra frá árinu 2009. Að auki bendi nýja spáin til þess að mörg fyrirtæki hafi verið komin í skelfilegar ógöngur fyrir fimm árum.

„Það er dapurleg staðreynd að enn eru sjávarútvegsfyrirtæki skuldug en þau hafa þá væntanlega verið alveg á herðablöðunum,“ sagði Steingrímur og spurði svo: „Eiga tekjur af veiðum og vinnslu að standa undir skuldum vegna fjárfestinga í öðrum greinum?“

Hann ítrekaði að þetta ætti þó ekki við um Síldarvinnsluna í Neskaupstað þar sem menn hefðu byggt vel upp.

Málin leysast ekki með sjónvarpsauglýsingum

Steingrímur sagði að frumvarpinu væri ætlað að ljúka „linnulausum deilum milli þeirra sem engu vilja breyta og þeim sem vilja kerfið burt.“ Um upphafsstöðu í útreikningum mætti ræða. Hann sagði að ýmsir væru ánægðir með frumvarpið, til dæmis Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasambandið sem hrósað hefðu aðferðafræðinni sem í því er nefnd. Hæst hafi þó heyrst í þeim sem á móti eru.

„Ég kveinka mér ekki undan umræðu undanfarinna vikna en málið leysist ekki með sjónvarpsauglýsingum og upphrópunum. Þeir sem helst gætu tekið upp hanskann fyrir frumvarpið eiga ekki peninga til þess.“

Þá svaraði hann fyrir niðurskurð á opinberri þjónustu í Neskaupstað, frestun Oddskarðsganga og hagræðingu í rekstri fjórðungssjúkrahússins.

„Við erum að koma út úr hruninu. Ég kalla það ekki árásir að hafa komið í veg fyrir að Ísland færi á hausinn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.