Steingrímur J.: Breytir lega Hringvegar forgangsröðun fjármuna?

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, gagnrýndi innanríkisáðherra fyrir að leggja fram til kynningar hugmynd að þjóðvegur 1 liggi framvegis um firði en ekki Breiðdalsheiðina. Hann telur að skoða hefði átt leguna í stærra samhengi.


„Ég hefði nú talið allt í lagi að bíða með það að hræra í þessu þangað til að minnsta kosti búið væri að ljúka vegi um Berufjarðarbotn og þangað til búið væri að sýna á spilin með samgönguáætlun, bæði til fjögurra ára og langtímaáætlun,“ sagði Steingrímur á Alþingi í síðustu viku.

Steingrímur gagnrýndi jafnframt að ráðherrann skyldi hafa lagt málið fram til kynningar og þar með óskað eftir umsögnum þrátt fyrir að það sé í samræmi við samþykktir þinga Sambands sveitarfélaga á Austurlandi að gera faglega úttekt á legu Hringvegarins. Um hana hefur lengi verið bitist.

„Um þetta hefur ekkert samráð verið haft við þingmenn kjördæmisins svo ég viti til og stendur kannski ekki til.

Það sem gerir þetta enn þá viðkvæmara er að það er engin samgönguáætlun í gildi þannig að eðlilega fara menn að velta fyrir sér: Skyldi nú verða af þessu? Eru í því fólgin skilaboð um einhverja breytta forgangsröðun fjármuna, sem reyndar engir eru að heitið geti, til framkvæmda í vegamálum?“

Steingrímur notaði tækifærið til að gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum. Samgönguáætlun kom seint inn í þingið í fyrra, svo seint að hún var ekki samþykkt og ný hefur ekki verið lögð fram á yfirstandandi þingi.

„Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en það er og á mannamáli að ríkisstjórnin virðir ekki lög í landinu með því að gera ekki einu sinni tilraun til þess allt þetta þing að leggja nýja samgönguáætlun fyrir þingið.

Það forsmánun og gengisfelling þessa málaflokks, fyrir nú utan hversu hörmulega litlum fjármunum er varið í þetta. Það vantar 1% af vergri landsframleiðslu til þess að við höldum í horfinu í vegamálum, 22–24 milljarða á ári, bara til þess að við höldum í horfinu. Þvílíkt metnaðarleysi þessarar guðsvoluðu ríkisstjórnar í þessum málum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.