Stefnt að því að Hágarðahlaupið verði árlegt; 110 þúsund krónur söfnuðust til fæðingardeildarinnar

Knattspyrnudeild Þróttar í Neskaupstað afhenti fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað 110 þúsund krónur í vikunni sem söfnuðust í styrktarhlaupi deildarinnar í haust.



„Við í stjórninni vorum búin að ganga með hugmyndina í svolítinn tíma,“ segir Helgi Freyr Ólason, varaformaður knattspyrnudeildarinnar, en Hágarðahlaupið varð að veruleika síðastliðið haust, þar sem hlaupið var í snjóflóðavarnarmannvirkjunum ofan við bæinn.

„Verkefnið var fyrst og fremst hugsað til að safna pening fyrir knattspyrnudeildina en okkur þótti tilvalið að fá fleiri með okkur og styrkja eitthvað gott málefni í leiðinni,“ segir Helgi Freyr, en ákvörðun var tekin um að styrkja fæðingardeildina.

„Um 50 manns tóku þátt í hlaupinu í blíðskaparveðri og var það algerlega vonum framar. Tvær hlaupaleiðir voru í boði, 5 kílómetrar og svo 12 kílómetrar. Keppendur voru af öllum aldri og stóðu sig allir afar vel en 12 kílómetra leiðin er mjög krefjandi með um 300m hækkun yfir sjávarmál.“


Stefnt að því að hlaupið verði árlegt

„Við fengum öfluga styktaraðila í lið með okkur en þeir voru, SÚN , Síldarvinnslan og Íslandsbanki og auðvitað fólkið sem borgaði sig í hlaupið. Það var einstaklega ánægjulegt að ná að færa fæðingardeildinni þennan styrk en þar er frábært starf unnið.“

Helgi Freyr segir stefnuna vera að hlaupið verði árlegt. „Við stefnum á að hafa þetta stærra næst, enn meira krefjandi og fleiri þátttakendur,“ segir Helgi Freyr.


Þakklátar fyrir stuðninginn

Oddný Ösp Gísladóttir, ljósmóðir, segir að hún og samstarfskonur sínar séu himinlifandi með þann stuðning og hlýju sem þær finna fyrir hjá samfélaginu.

„Við erum ótrúlega þakklátar og þetta skiptir miklu máli fyrir okkur. Við höfum fengið styrki víða að, frá fyrirtækjum, félagasamfélögum og einstaklingum en fyrir liggur að fara í gagngerar breytingar á deildinni, þannig að öll framlög telja í því,“ segir Oddný Ösp.

Helgi Freyr Ólason og Víglundur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar þróttar afhenda ljósmæðrunum styrkinn. Frá vinstri: Jónína Salný Guðmundsdóttir, Ingibjörg Birgisdóttir, Helgi Freyr, Víglundur Páll, Hrafnhildur Lóa Guðmundsdóttir og Oddný Ösp Gísladóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.