Stefnir í nokkra fækkun á einbreiðum brúm á Austurlandi

Gangi markmið samgönguáætlunar fyrir árabilið 2020 til 2024 eftir mun einbreiðum brúm á Austurlandi fækka um sex, þar af eru fjórar á hringveginum. Yfir helmingur allra brúa í þjóðvegakerfinu eru einbreiðar.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannsson samgönguráðherra á alþingi við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur Samfylkingunni.

Í svarinu segir að  af 1.191 brú í þjóðvegakerfinu eru 677 einbreiðar, þar af voru 39 brýr á Hringveginum einbreiðar árið 2017. Í markmiðum samgönguáætlunar 2019–2023 var áherslan á að fækka einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla meðalumferð á dag allt árið og fækka þeim um níu á tímabilinu eða í 30 árið 2023.

Brýrnar á Austurlandi sem eru á fyrrgreindri áætlun eru við Selá í Álftafirði, Hvaldalsá, Gjádalsá, Búlandsá, Krossá á Berufjarðarströnd og Gilsá á Völlum.
.
Í svarinu segir einnig að í samgönguáætlun sé gert ráð fyrir 2.5 milljarða. kr. framlagi á næstu fimm árum til fækkunar einbreiðra brúa með markmiði að einbreiðar brýr á Hringvegi verði 22 árið 2024.

Þessu til viðbótar þá er gert ráð fyrir sérstöku framlagi í tengslum við fjárfestingarátak 2020 að fjárhæð 3.3 milljarða kr. til að breikka einbreiðar brýr á næstu tveimur árum. Samtals er því áformað að verja um 5.8 milljörðum kr. á næstu fimm árum til fækkunar á einbreiðum brúm.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.