Stefnir í mesta samdrátt í sjávarútvegi frá hruni

Það stefnir í mesta samdrátt í sjávarútvegi hérlendis frá árinu 2009. Þetta kemur fram í nýjasta fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)

Þar segir m.a. að þrátt fyrir talsverða lækkun á gengi krónunnar í ár, sem vissulega styður við afkomu greinarinnar í krónum talið, dragast útflutningstekjur sjávarútvegs saman á milli ára. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, en íslenskum krónum, eða sem nemur tæpum 11%. Á þann kvarða er um að ræða mesta samdrátt í útflutningstekjum sjávarútvegs á milli ára, þ.e. á tímabilinu frá áramótum til júlí, frá árinu 2009 þ.e. í fjármálakreppunni.

„Mikil lækkun á verði sjávarafurða var meginástæða samdráttarins á árinu 2009, en í ár er það útflutt magn. Þá varð nokkuð snarpur viðsnúningur á verði sjávarafurða á árinu, úr ágætis hækkun í lækkun á milli ára á skömmum tíma.“ segir í fréttabréfinu

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 146 milljörðum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra var það rúmlega 151 milljarður króna og er því um ríflega 3% samdrátt að ræða á milli ára í krónum talið.

Loðnubrestur og COVID

"Loðnubrestur og COVID-19 eru stærstu áhrifaþættirnir í ofangreindum samdrætti. Vissulega er þetta annað árið í röð sem loðnubrestur verður, og hefði því mátt ætla að áhrif hans væru engin í ár. Hins vegar var útflutningsverðmæti loðnuafurða tæpir 7 milljarðar króna á fyrstu sjö mánuðunum í fyrra, sem var birgðasala á framleiðslu fyrri ára. Sú sala verður augljóslega ekki endurtekin.," segir í fréttabréfinu

Síðan segir að áhrif COVID-19 koma svo bersýnilega fram í tölum apríl og maí. Ástandið á mörkuðum batnaði svo í byrjun sumars þegar veiran virtist vera á undanhaldi og mörg ríki fóru að slaka á sóttvarnaraðgerðum og fyrirtæki opnuð á nýjan leik. 

„Ljóst er nú að sú bjartsýni sem gætti í byrjun sumars var skammgóður vermir enda fór útbreiðsla veirunnar víðast hvar að færast í aukana þegar á leið. Það kann að hafa sett strik í reikninginn fyrir útflutning á sjávarafurðum í júlí, því samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar varð verulegur samdráttur á milli ára í mánuðinum,“ segir í fréttabréfinu.

Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.