Stefna Fjórðungssjúkrahússins mótuð til lengri tíma: Hér verður það

Vinna er að hefjast við framtíðarstefnumótun fyrir Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað (FSN). Stjórnendur í Neskaupstað virðast ánægðir með nýtt fólk í framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).


„Sjúkrahúsið er mikið stolt okkar og við viljum veg þess sem mestan. Hér verður það. Það er ekki verið að flytja það upp í Egilsstaði,“ sagði Kristín Björg Albertsdóttir forstjóri HSA á íbúafundi um heilbrigðismál í Neskaupstað á þriðjudagskvöld.

Fundurinn átti upphaflega að vera í desember en var frestað vegna veðurs. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, sagði að boðað hefði verið til fundarins því íbúar í Neskaupstað hefðu haft áhyggjur af framtíð sjúkrahússins.

„Umræðan var þung í sumar, bæði innan fjarðar og almennt. Íbúar höfðu áhyggjur af því að sjúkrahúsið væri í mikilli hættu. Það var vitnað í og við fengum skilaboð frá sérfræðingum sem hingað komu um að hér væri ekki vel um haldið, það væri verið að veika stofnunina svo við ræddum við stjórnendur HSA.“

„Hjarta okkar er ekki síður hér“

Framkvæmdastjórn HSA samanstendur í dag af forstjóra, framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra hjúkrunar, mannauðsstjóra, eigna- og tæknistjóra og fjármálastjóra. Hluti hennar er skipaður samkvæmt lögum en stjórnin getur einnig bætt við sig fólki eins og var nýverið gert hjá HSA með fjármálastjórann.

Framkvæmdastjórnin situr öll upp á Egilsstöðum og á fundinum var rætt um hvort ekki væri rétt að Fjórðungssjúkrahúsið ætti sinn fulltrúa í henni. Kristín Björg tók ekki undir það.

„Þetta er ekki pólitískur vettvangur. Við erum fulltrúar sjúkrahússins eins og annarra stofnana HSA. Við höfum mentað fyrir hönd stofnunarinnar. Ef við höfum hann ekki getum við tekið pokana okkar. Þótt aðalskrifstofan sé á Egilsstöðum er hjarta okkar ekki síður hér.

Ég veit að það hafa verið raddir, líka innanhúss, um að hagsmuna FSN sé ekki gætt en að mínu viti eru þær ekki allar réttmætar.“

Fyrri framkvæmdastjórn sást sjaldan

Ný framkvæmdastjórn HSA hefur að mestu verið sett saman á síðustu 2-3 árum. Áður var þriggja manna stjórn sem hafði setið alllengi. Framkvæmdastjóri hjúkrunar kom úr Neskaupstað en framkvæmdastjóri lækninga og forstjóri frá Egilsstöðum.

Stjórnendur í Neskaupstað gagnrýndu fyrri framkvæmdastjórn en hrósuðu þeirri nýju. „Ég hef ekki annað en gott um framkvæmdastjórnina að segja. Fyrri framkvæmdastjórn sýndi sjúkrahúsinu lítinn áhuga en þessi gera það sem þau geta til að halda sjúkrahúsinu gangandi,“ sagði Jón Sen, nýr forstöðulæknir í Neskaupstað.

„Þessi framkvæmdastjórn tók við miklu og uppsöfnuðu vantrausti. Margt af því var verðskuldað, annað ekki en þau hafa lagt sig fram við að ná sambandi. Það er annað að fá þau einu sinni í viku frekar en að þurfa að kalla eftir aðkomu eða fá þau bara þegar eitthvað stórkostlega mikið var að,“ sagði Valdimar O. Hermannsson, sem lét af starfi rekstrarstjóra FSN um áramót.

Hann rifjaði upp að þegar HSA hefði verið komið á laggirnar árið 1999 hefðu fjórir verið í framkvæmdastjórn. „Pólitík“ hefði litað valið þannig að hana skipuðu tveir úr Fjarðabyggð og tveir af Héraði en þróunin hefði breytt hlutföllunum.

Vilja byggja upp til lengri tíma

Í Neskaupstað er rekstarstjórn, líkt og á hinum tíu starfsstöðvum HSA, sem sér um daglegan rekstur. Bæði Kristín og Pétur lögðu áherslur á aðkomu hennar að lykilákvörðunum auk þess sem fundað er með henni mánaðarlega. „Við erum reglulega í sambandi við allar deildir. Það eru engar lykilákvarðanir teknar nema bera þær fyrst undir stjórnendur á viðkomandi sviðum,“ sagði Kristín.

„Ef það eru bara stjórnendur en engir meðstjórnendur þá verður engu stjórnað. Hér í Neskaupstað höfum við meðstjórnendur og þess vegna nær þetta að ganga,“ sagði Pétur.

Hann sagði rekstrarstjórnina hafa töluverð áhrif á framþróun mála. „Það er mín sýna ð framkvæmdastjórn gefi rekstrarstjórn mikið rými til að koma að sérstökum hugðarefnum starfsmanna og ábendingum úr húsinu.“

Þau skýrðu að í byrjun nýs árs standi til að ráðast í svokallaða SVÓT-greiningu (styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri) á HSA. Fjórðungssjúkrahúsið er þar undir. „Við ætlum í þessa greiningu til að sjá hvað má betur fara. Við viljum reyna byggja upp,“ sagði Kristín.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.