Starfsmenn SVN mættu COVID með þrautseigju

Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar (SVN) segir í áramótaávarpi sínu að starfsmenn fyrirtækisins hafi á liðnu ári mætt áskorunum vegna COVID með þrautseigju. Í ávarpinu fjallar Gunnþór auk þess um náttúruhamfarirnar í heimabæ sínum Seyðisfirði og komandi alþingiskosningar.

„Faraldurinn hefur haft áhrif á starfsemi og rekstur Síldarvinnslunnar líkt og flestra annarra fyrirtækja. Við störfum á alþjóðlegum mörkuðum og seljum afurðir okkar til fjölmargra landa. Við höfum þurft að aðlaga framleiðslu og sölu á afurðum í takt við breytingar á eftirspurn á mörkuðum.  Sumir markaðir nánast hurfu á meðan aðrir höktu, höggið er mikið á mörkuðum  fyrir fisk sem fer á veitinga- og gististaði í helstu ferðaþjónustulöndunum,“ segir Gunnþór í ávarpinu sem finna má á vefsíðu SVN.
 
„Starfsmenn Síldarvinnslunnar hafa mætt þessum áskorunum með þrautseigju. Þeir hafa allir  lagst á eitt og samstaðan hefur verið aðdáunarverð. Starfsmenn hafa þurft að færa miklar fórnir þegar þeir hafa sinnt ýmsum tilmælum. Skerða hefur þurft samgang starfsmanna og vina.  Sjómenn hafa tekið á sig fórnir í lengri útiverum. Starfsmenn hafa fórnað ferðalögum.  Það hafa allir lagt sitt af mörkum.“

Trúverðugar varnir fyrir Seyðfirðinga

Gunnþór fjallar einnig um skriðuföllin á Seyðisfirði en Síldarvinnslan er langstærsta fyrirtæki bæjarins.

„Heimabærinn minn lenti í náttúruhamförum rétt fyrir jól, þar sem fólk þurfti að yfirgefa heimili. Guðs blessun var að engin slys urðu á fólki. Ég óska þess að á nýju ári komi fram trúverðugar áætlanir um varnir fyrir Seyðfirðinga þannig að þeir geti fundið ró í sínum fallega heimabæ, sem ég tel að sé fegursti bær landsins,“ segir Gunnþór.


Gunnþór fjallar einnig um komandi alþingskosningar og segir að í aðdraganda slíkra kosninga beri málefni sjávarútvegs iðulega á góma.

„Þjóðhagslegt mikilvægi sjávarútvegs hefur sannað sig á árinu og enn og aftur kemur í ljós að öflugur sjávarútvegur er þjóðhagslega mikilvægur.  Við eigum að sameinast um að tryggja að þessi þjóðarauðlind okkar geti verið undirstaða lífskjara í landinu.  Þrátt fyrir að oft og iðulega sé tekist á um málefni greinarinnar, hef ég fulla trú á því að á komandi ári munum við fá uppbyggilega og málefnalega umræðu um málefni sjávarútvegsins.  Pólitíkusum allra flokka er velkomið að heimsækja Síldarvinnsluna og kynna sér starfsemi hennar á komandi ári,“ segir Gunnþór.
 
Í lokaorðum sínum segir Gunnþór að hann hafi oft sagt að árangur Síldarvinnslunnar megi þakka framúrskarandi starfsfólki og öflugum samfélögum sem fyrirtækið starfar í. Það hafi sannað sig enn og aftur á árinu 2020.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.