Séra Gunnlaugur: Jólin eru trúarjátning þjóðarinnar

gunnaugur_stefansson.jpgHin íslenska þjóð tjáir trú sína þegar hún heldur íslensk jól þar sem fólk hittist úti á götu og óskar hvert öðru gleðilegra jóla. Það hefur lítið breyst þrátt fyrir tækniframfarir og samfélagsbreytingar á undanförnum árum.

 

„Ef einhver hefur efast um að þjóðin játi kristna trú, þá þarf ekki frekari vitnisburð um það, en að horfa í íslensk jól þar sem hefðin og siðurinn tjá svo innilega játningu kristinnar trúar með ljósum og englum, sálmum og sögum til þess að minnast og finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Það er falleg menning,“ sagði séra Gunnlaugur Stefánsson, prestur í Heydölum í jólapredikun sinni í bær sem bar yfirskriftina „Eru jólin trúarjátning þjóðarinnar?“

Með þessu segir Gunnlaugur að þjóðin haldi fast í gamlar rætur þrátt fyrir miklar breytingar á undanförnum árum. Þær séu aukaatriði þegar allt komi til alls.

„Eigi að síður sláumst við í för með fjárhirðum á Betlehemsvöllum og leitum að ungbarni, sem lagt var í jötu og höldum meiri hátíð en venja er til. Upphrópanir þagna eins og þær sem gjarnan heyrast í hita leiks hins daglega lífs, m.a. að það sem kirkjan prediki sé of gamaldags fyrir heim sem hrósar sér af yfirburða skynsemi, hraða, tölvuleikjum og flugferðum.

Þess vegna eru jólin þjóðarhátíð á Íslandi og þess vegna hefur kirkjan hlutverki að gegna í veraldlegu umhverfi að varðveita og rækta þennan trausta sið. Kirkjan er því samfélagsmiðstöð fólksins í landinu, farvegur menningar í skapandi rækt við kærleika og von í trú og þjónustu við traustar hefðir og siði þar sem börnin eru m.a borin til skírnar, fermingarbörnin staðfesta sína trú, brúðhjónin bindast og ástvinir minnast og þakka á hinstu kveðjustund.“

Gunnlaugur lagði áhersla á að kirkjan væri samfélag frjálsra manna en ekki sérhagsmunasamtök. „Þetta er rótföst menning sem hefur verið kjölfesta íslenskrar lífsbaráttu öldum saman. Kirkjan er fólkið í landinu, ekki á eignarvaldi fáeinna manna, heldur opið og frjálst samfélag fólksins þar sem allir eru velkomnir. Kirkjan okkar hér vill vitna um það með starfi sínu, en það stendur og fellur með ræktinni sem hér nærist á meðal íbúanna.

Þetta er fagnaðarerindið sem helgar einlæga trú og sameinar þjóð um kristinn sið og boðar að elska Guð og náungann. Og við leggjum okkur fram um að rækta fagurt líf með blómlegri menningu þar sem vongleðin blómstrar með af hugsjón ástríkis og virðingar. Og ekki veitir af í heimi sem dýrkar lágkúru flatneskjunnar í vaxandi mæli þar sem fégróði neysluhyggjunnar er æðsta viðmiðun og elur svo af sér bölsýni og neikvæð viðhorf.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.