Spá góðu ári fyrir íslenskan sjávarútveg

Sérfræðingar Íslandsbanka spá 4% aukningu verðmætis sjávarafurða á næsta ári. Sjávarútvegurinn virðist standa sterkt þrátt fyrir verkfall sjómanna í byrjun árs. Á sama tími og verðmæti afurða eykst fækkar störfum í greininni.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bankans um íslenskan sjávarútveg.

Sjómannaverkfallið leystist á sama tíma og loðnan kom í leitirnar. Útkoman varð sú að tvöfalt meira veiddist af loðnu í ár heldur en í fyrra.

Þrátt fyrir að sjómenn hafi verið í verkfalli fram í miðjan febrúar er búist við að heildarafli verði 3% meiri á þessu ári en því síðasta. Auknar aflaheimildir í botnfiski hafa vegið upp á móti neikvæðum áhrifum.

Blönduð fyrirtæki ganga best

Greiningadeildin telur að útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða aukist um rúmlega 4% á næsta ári því krónan hefur veikst, heimsmarkaðsverð og kvóti aukist, einkum í botnfiski.

Þorskurinn er enn verðmætasta fisktegundin sem Íslendingar veiða. Austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki hafa sérhæft sig í uppsjávarfiski en hvert tonn af botnfiski skilaði rúmlega fjórum sinnum meira aflaverðmæti en hvert tonn af uppsjávarfiski í fyrra.

Mesta framlegðin hefur verið hjá blönduðum uppsjávar- og botnfiskfélögum en á Vopnafirði, Norðfirði og Fáskrúðsfirði hefur verið aukið við heimildir í botnfiski til að vega upp á móti sveiflum í uppsjávarfiski.

Bretland verðmætasti markaðurinn

Ýmislegt kemur fram um íslenskan sjávarútveg í alþjóðlegu samhengi í skýrslunni. Ísland er í 19. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir heims en í öðru sæti á Norðurlöndum með 24% heildaraflans. Verðmætasti markaðurinn er Bretlandi með 18% heildarverðmætisins en Frakkland og Spánn koma næst með um 9%.

Bretar kaupa mest af botnfiskinum en Noregur er öflugasta viðskiptalandið í uppsjávarfiskinum. Austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki selja til dæmis mikið af fiskimjöli í norskt fiskeldi.

Rússland og Nígería voru gríðarlega mikilvægir viðskiptamarkaðir fyrir fáum orðum en innflutningsbann í Rússlandi annars vegar og gjaldeyrishöft í Nígeríu hafa rýrt viðskipti við löndin tvö um 64 milljarða króna. Þá hefur Brexit reynst Íslendingum dýrt vegna lakara gengis breska pundsins á sama tíma íslenska krónan hefur styrkst. Talið er að rýrnun verðmæta á Bretlandsmarki út af gengisþróun séu 17 milljarðar króna.

Saltaðar afurðir skiluðu mesta aflaverðmætinu á hvert tonn á síðasta ári en verðmæti ferskra afurða er það sem vaxið hefur mest. Enn er flutt mest út af frystum fiski.

Konum fækkar meira en körlum

Tækniþróun hefur átt sinn þátt í verðmætari afurðun og hún eykur framleiðni en á sama tíma fækkar höndunum sem þarf í vinnuna. Í fyrra störfuðu um 7.600 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4% af vinnuafli landsins og er hlutfallið í sögulegu lágmarki. Frá 2014 fækkaði störfum um 1300, þarf af um 1000 í fiskiðnaði og 300 við veiðar. Konum í greininni hefur fækkað hlutfallslega meira en körlum.

Um 83% starfanna eru á landsbyggðinni. Undanfarin 20 ár hefur hlutfallsleg fækkun verið jafnari eftir búsetu en kyni en störfum hefur fækkað hlutfallslega meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í skýrslunni.

Tími kominn á ný skip

Í skýrslunni er bent á að kominn sé tími á endurnýjun fiskiskiptaflotans. Hann hefur hækkað stöðugt undanfarin ár og er nú hár í sögulegu samhengi. Þar eru miklar fjárfestingar framundan, meðal annars hjá Síldarvinnslunni sem áformar að endurnýja tvö skip árið 2019 og skip dótturfélagsins Bergs-Hugins árin 2020 og 2021.

Sérfræðingar Íslandsbanka telja samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi hafa aukið hagkvæmni í greininni. Samþjöppun hafi aukið skuldir en á sama tíma hafi reksturinn orðið hagkvæmari, framleiðni aukist og arðsemi batnað. Stærri félög með aflaheimildir í fleiri fiskistofnum eru betur í stakk búin til að takast á við sveiflur. Skuldir sjávarútvegsfélaganna hafa ekki verið lægri frá árinu 2003.

Í dag eru 50 stærstu fyrirtækin með 88% af úthlutuðum aflaheimildum. Síldarvinnslan í Neskaupstað er stærsta austfirska félagið og í tíunda sæti á landsvísu með 3,4% af heildar aflaheimildunum.

Verð á eldislax áfram hátt

Á sama tíma og störfum í hefðbundnum sjávarútvegi fækkar fjölgar störfum í fiskeldi, einkum á landsbyggðinni. Þau eru alls 560 um þessar mundur og hefur fjölgað um 20% frá árinu 2014.

Fiskeldið hefur reyndar vaxið mjög á heimsvísu og útlit er fyrir að það haldi áfram. Norðmenn ala mest af Evrópuþjóðum, 46%. Á heimsvísu er alið mest af bleikju en á Austfjörðum er fyrst og fremst alinn lax en laxinn er afar verðmætur og útlit er fyrir að verð á honum haldist hátt.

Mikilvægustu markaðirnir fyrir íslenskan eldisfisk eru í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Vestfirðir eiga stærsta hlutann í íslensku fiskeldi, þar hafa verið gefin út leyfi fyrir 21.500 tonna eldi en Austfirðir eru næstur með leyfi fyrir tæpum 17.600 tonnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.