Snjóruðningsbíllinn fastur á Fjarðarheiði

Snjómoksturstæki urðu frá að hverfa á Fjarðarheiði í morgun vegna veðurs. Straumur var yfir heiðina þegar loks tókst að opna hana stuttlega í gærkvöldi. Aðrar helstu leiðir á Austurlandi en austurhluti Jökuldals eru orðnar færar þótt aðstæður séu víða erfiðar.

„Það er snælduvitlaust veður á Fjarðarheiði. Snjóblásarinn þurfti frá að hverfa og mokstursbíllinn er fastur í Norðurbrúninni, kemst hvorki aftur á bak né áfram,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Tæplega 100 bílar yfir Fjarðarheiði


Eftir óveður frá því á föstudagskvöld rofaði til á Austurlandi í gær. Um klukkan átta í gærkvöldi tókst að opna Fjarðarheiðina sem hafði verið lokuð allan þennan tíma. „Við náðum að losa þann þrýsting sem hafði safnast upp í báðar áttir.

Við vorum með einstefnu í fyrstu en opnuðum svo leiðina. Það voru um 95 bílar sem nýttu sér þetta og þótt við höfum ekki tölu farþega þá vitum við að yfirleitt voru fleiri en einn í hverjum bíl.

Ruðningurinn uppi á heiðinni var að mestu einbreiður. Snjógöngin eru 1,5-3 metra há. Ég hef ekki séð svona snjógöng lengi,“ segir Jens.

Opnað í tengslum við komu Norrænu


Seint í gærkvöldi fór aftur að snjóa og í nótt bættist kóf við. Víða fyllti því aftur í þær leiðir sem ruddar voru í gær. Von er á að veðrið gangi niður fljótlega. Þá verður farið aftur af stað að ryðja Fjarðarheiðina. Það eykur á þrýstinginn að von er á Norrænu þangað klukkan ellefu. Ekki er þó nákvæmlega ljóst hvenær næst að opna.

Mikil umferð var einnig yfir Möðrudalsöræfi í gær. Þau lokuðust líka í gærkvöldi en voru opnuð gróflega aftur klukkan níu í morgun. Haldið er áfram að moka þar og vonast til að upp úr klukkan tíu verði færðin orðin þokkalega. Mesta glíman er við skafla í Langadal og síðan skafrenning milli Skjöldólfsstaða og Möðrudals.

Allar leiðir verði færar í dag


Nýbúið er að ryðja Vatnsskarð. Á Fagradal og Vopnafjarðarheiði er skráður þæfingur og skafrenningur.

Verið er að vinna í leiðum á Fljótsdalshéraði. Mokstursbíll er á leið upp í Hallormsstað. Hann mun síðar fara upp í Skriðdal. Í Norðurbyggðinni þar þarf trúlega snjóblásara til að fara í gegnum leiðinlegan skafl á þekktum stað. Stungið var í gegn en það fylltist aftur í nótt.

Austurdalur Jökuldals er skráður ófær en bóndi þar gerði þó fært fyrir skólabílinn. Mikill snjór er við bæinn Gil. Moksturstæki fara þangað síðar í dag. Ekki er búið að kanna ástandið á Efri-Dal í morgun en þar var rutt í gær.

Snjóþekja er í Fellum og Hróarstungu en snjólétt var í Jökulsárhlíð í gær. Stefnt er að því að gera alla helstu vegi opna allri umferð í dag.

Samkvæmt veðurspám er spáð norðanátt og kulda næstu vikuna. Veðurstofan varar áfram við snjóflóðahættu til fjalla. Beðið er eftir að betur sjáist til fjalla en í gær var skráð nokkuð stórt snjófljóð inni á Eskifjarðardal.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.