Smali á fjórhjóli slasaðist eftir að hafa keyrt ofan í skurð

Smali á fjórhjóli slasaðist við að detta af hjólinu eftir að hafa ekið ofan í skurð. Í Neskaupstað valt bifreið eftir að ökumaðurinn misreiknaði sig þegar hann var að snúa við.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar fyrir síðustu viku.

Fjórhólaslysið varð í Fellum þar sem verið var að smala fé í Ormsstaðarétt. Skurðurinn var gróinn og sást illa en smalinn keyrði ofan í hann og kastaðist af hjólinu. Hann var fluttur með sjúkrabíl til læknis og reyndist hafa slasast á baki.

Á Egilsstöðum var ekið á mannlausa bifreið. Ökumaðurinn stakk af en vitni var að atviknu. Haft var uppi á ökumanninum sem játaði brot sitt.

Í Neskaupstað varð umferðaróhapp þegar ökumaður var að snúa bíl sínum við Urðarteig. Bíllinn fór fram af vegbrún, rann niður gil og valt. Ökumaðurinn sagðist hafa misreiknað sig í myrkrinu. Hann var í belti og slasaðist ekki að öðru leyti en því að hann var marinn eftir beltin.

Fíkniefni fundust í bifreið erlends ferðamanns við komu Norrænu til Seyðisfjarðar. Um er að ræða lítið magn og viðurkenndi maðurinn brot sitt.

Lögregla var kölluð til vegna slagsmála á Eskifirði en báðir aðilarnir voru talsvert við skál. Annar þeirra hlaut minniháttar skurð á höfði og taldi sig hafa orðið fyrir líkamsárás.

Þá hefur lögreglan á Austurlandi eftirlit með rjúpnaveiðum og hvetur skotveiðimenn til að hafa skotvopnaskírteini og veiðikort meðferðis þegar haldið er til veiða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.