Skuldir hæstar á íbúa á Fljótsdalshéraði

Skuldir eru hæstar á hvern íbúa miðað við tekjur á Fljótsdalshéraði sé horft til stærstu sveitarfélaga landsins. Heldur horfir til þrengri tíðar í fjármálum sveitarfélaga á landsvísu.


Þetta kemur fram í nýlegri úttekt tímaritsins Vísbendingar um fjármál sveitarfélaga. Skuldir á hvern íbúa Fljótsdalshéraðs eru rúmar 2,4 milljónir króna en tekjurnar tæplega 1,1 milljón. Hlutfallið er því 224%.

Næst hæst er hlutfallið í Reykjanesbæ 216%. Fleiri af stærstu sveitarfélögum landsins svo sem Hafnarfjörður, Reykjavík og Kópavogur fylgja þar á eftir.

Fjarðabyggð er hitt austfirska sveitarfélagið á listanum. Skuldirnar eru þar tæpar 1,7 milljónir á hvern íbúa, tekjurnar tæpar 1,25 milljónir og hlutfallið því 134%.

Vísbending tekur árlega saman lista yfir draumasveitarfélagið en einkunn þar byggir á fjárhagslegum mælikvörðum. Betra telst að vera með lægri útsvarsprósentu, íbúaþróun af að vera jákvæð, veltuhlutfall gott og skuldir sem minnstar.

Fljótsdalshérað er í 34. sæti af 36 með einkunnina 2,7 og fellur verulega á milli ára. Fjarðabyggð er í tíunda sæti með einkunnina 6,5 og hækkar sig lítillega, öfugt við flest sveitarfélög á listanum. Neðst er Skagafjörður með 2,4 í einkunn en Vestmanneyjar efstar með 8,2.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs samþykkti fjárhagsáætlun næsta árs fyrr í mánuðinum. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu sveitarfélagsins næstu fjögur ár. Veltufé frá rekstri mun nema þremur milljörðum og verða tveir þeirra nýttir í afborganir lána.

Áætlað er að skuldahlutfall verði í lok þessa árs 185% en 131% í lok árs 2020. Afgangur á næsta ári er áætlaður 220 milljónir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.