Skrifað undir samning um Menningarhús á Egilsstöðum: Góðir hlutir gerast hægt

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélagið Fljótsdalshérað undirrituðu í gær viljayfirlýsing um uppbyggingu menningarhúss á Egilsstöðum. Loforð um það er að verða tuttugu ára gamalt.


Annars vegar er gert ráð fyrir uppbyggingu menningarhúss í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar, vinnustofur, ungmennastarf auk gestaíbúðar fyrir listamenn. Á efri hæð verði gengið frá frystiklefa þar sem verður rými fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar og fleira.

Hins vegar verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost, sýningar og til fyrirlestrarhalds, tónlistarflutnings og funda auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf.

Ríkisstjórnin staðfesti sitt samþykki á fundi á föstudag og ráðherra flaug austur til undirritunar í gærmorgun. Málið á sér hins vegar mun lengri aðdraganda. Í janúar 1999 kynnti þáverandi ríkisstjórn áform sín um að stuðla að byggingu menningarhúsa á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Ísafirði, Norðvesturlandi og Vestmannaeyjum fyrir andvirðið af sölu Símans.

„Góðir hlutir gerast hægt,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs við undirritunina. „Það var komin ákveðin lending árið 2008 en menn áttuðu sig á að hún gerði sig ekki.

Það var sest aftur yfir málin 2011 og síðan höfum við unnið þetta vel. Niðurstaða fékkst ekki fyrr en í lok síðasta árs og síðan hefur verið unnið að þessum framgangi.“

Bæði Björn og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, þökkuðu öllum þeim sem komu að málinu fyrir þeirra framlag. „Þetta hefur verið óvanalega löng meðganga en heimamenn hafa haldið málinu lifandi. Þetta er verk margra og svo fast hefur verið gengið eftir þessu að maður hefur varla þorað að mæta ákveðnum aðilum á göngum þingsins,“ sagði Illugi.

„Ég er sannfærður um að við séum að taka heillaskref sem skila muni heilmiklum ávinningi inn í samfélagið.“

Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 480 milljónir króna og yrði kostnaður ríkisins 288 milljónir en sveitarfélagsins 192 milljónir miðað við hlutfallsskiptinguna 60/40 líkt og við byggingu annarra menningarhúsa á landsbyggðinni.

Í viljayfirlýsingunni kemur meðal annars fram að miðað er við að heildarkostnaður verði eigi hærri en 480 milljónir miðað við byggingarvísitölu eins og hún er í september 2016, þar með talið hönnun, búnaður og allur annar kostnaður svo húsnæðið verði hæft til þeirrar nýtingar sem samþykkt verður.

Fljótsdalshérað annast og ber ábyrgð á framkvæmdum og allan kostnað af þeim umfram umsaminn heildarkostnað.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti mun beita sér fyrir 288 milljóna fjárframlagi úr ríkissjóði. Stuðningur þessi kemur ekki í veg fyrir að fleiri aðilar komi að frekari uppbyggingu menningaraðstöðu í sveitarfélaginu.

Gert er ráð fyrir fjárheimildum í verkið á fjárlögum ársins 2018.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.