„Skrefi nær að þetta verði að veruleika“

Skeftissmiðja Krossdals fékk fyrstu verðlaun í Ræsingu, nýsköpunarsamkeppni Nýsköpunarmiðstöðvar og Fljótsdalshéraðs. Frumkvöðullinn segir viðurkenninguna skipta máli fyrir framhald verkefnisins.


Ræsing hefur verið haldin víða um land en í verkefninu fá þátttakendur 12 vikur til að útbúa viðskiptaáætlanir fyrir verkefni sín og geta leitað aðstoðar hjá verkefnisstjóra hjá miðstöðinni á meðan því stendur.

Á Héraði bárust 16 tillögur í hugmyndasamkeppnina og þar af voru fjórar valdar áfram. Tvö verkefni fóru alla leið og voru kynnt í gær.

Annars vegar er það hugmynd Krossdals um að smíða byssuskefti sem selja má á erlendan markað, hins vegar færanlega og sjálfvirka fuglafælan Hrekur.

Að baki skeftissmiðjunni stendur Kristján Krossdal og fékk hann eina milljón króna í verðlaun í gær. Hann segir upphæðina ekki vera aðalmálið.

„Hún er frábær en að vinna samkeppnina er ekki síður styrkur upp á frekari fjármögnun. Núna er ég skrefi nær því að þetta verði að veruleika,“ segir Kristján.

„Næsta skref er frekari fjármögnun til að ég geti keypt CNC fræsara sem er forsenda þess að geta fjöldaframleitt skeftin.“

Feðgarnir Skúli Vignisson og Vignir Elvar Vignisson fengu 750.000 króna viðurkenningu fyrir Hrek. Sigurður Steingrímsson formaður dómnefndar sagði að við mat á verkefnunum hefði verið horft til möguleika þeirra á markaði, hversu miklar nýjungar fælust í þeim, styrkleika viðskiptaáætlunarinnar og hversu langt þau væru komin.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.