Skora á Norðlenska að hækka verð til sauðfjárbænda

Formenn fjögurra félaga sauðfjárbænda í Norðausturkjördæmi hafa sent stjórnendum Norðlenska áskorun um að hækka verð til sauðfjárbænda. Þeir telja að þær forsendur sem gefnar voru í upphafi sláturtíðar fyrir lækkun afurðaverð haldi ekki.

Þetta kemur fram í ályktuninni sem formennirnir sendu frá sér fyrir helgi. Norðlenska lækkaði verð til bænda, líkt og aðrir sláturleyfishafar, annað árið í röð og sagði það vegna lægra verðs í útflutningi og verri birgðastöðu.

Formennirnir segja að ekkert í birgðastöðu eins og hún blasti við í upphafi sláturtíðar réttlæti svo afgerandi lækkun afurðaverðs. Því sé óásættanlegt að rekstrargrundvöllur lambakjötsframleiðslu sé að full og öllu brostinn á svæðinu.

Afleiðingarnar af því séu stórfellt hrun í greininni, greiðslufall og fjöldagjaldþrot sauðfjárbúa með tilheyrandi byggðaröskun og harmleikjum fjölda fjölskyldna.

Slíkt hrun hefði neikvæð áhrif á aðra framleiðendur á innlendum kjötmarkaði og afurðafyrirtækin sjálf. Um leið og stjórnendum Norðlenska er þakkað fyrir metnað í vöruþróun og framsetningu er skorað á þá að standa með sauðfjárbændum, sýna metnað og taka ábyrgð með að hækka verð þegar í stað.

Á fundi með austfirskum sauðfjárbændum í lok ágúst sagði Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, að bændum yrðu látnir njóta þess eftir sláturtíð ef útkoman yrði góð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.