Skoða ódýrari leiðir í brúm og klæðningum

Samgönguráðherra hefur farið þess á leit við Vegagerðina að kanna hvort hægt sé að fara ódýrari leiðir til að fækka einbreiðum brúm á landinu og klæða malarkafla. Vegamálastjóri segir að ekki verði slegið af öryggiskröfum.


Þetta var meðal þess sem fram kom á opnum fundi með Jóni Gunnarssyni, samgönguráðherra og Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra á Reyðarfirði í síðustu viku.

Fjöldi austfirskra sveitarstjórnarmanna mætti til fundarins og spurðu Borgfirðingar út í hvenær von væri á að vegurinn þangað yrði malbikaður að fullu.

„Verðum að komast hraðar í þetta“

Ráðherrann sagðist hafa fengið myndir og upplýsingar um „þessa alvarlegu stöðu“ en sagði „óábyrgt“ að svara því að bundið slitlag væri væntanlegt fljótlega. „Það er horft til þess að laga þarna til og veit að það er nokkuð ofarlega á forganglistanum.“

Hreinn svaraði að skoðað væri hvort hægt væri að flýta fyrir klæðningu með ódýrari aðferðum. Þar verði að stíga varlega til jarðar. „Við verðum að komast hraðar í þetta, líkt og fleiri verk. Við viljum ekki veg til bráðabrigða eða sem er hættulegur.

Við leggjum ekki slitlag þar sem mikið er um brattar brekkur og krappar beygjur. Vonandi er þetta verk innan seilingar en það er kannski of mikið sagt.“

Hann benti á að malbik kostaði 30 milljónir króna á kílómetrann þar sem hægt væri að leggja það nánast beint á veginn en 80-90 milljónir ef byggja þyrfti veginn upp.

Ný hönnun að brú á Jökulsá á Fjöllum tilbúin

Jón var einnig spurður út í einbreiðar brýr í vegakerfinu en þær verða meira aðkallandi vandamál með aukinni umferð. „Við höfum ekki getað tvöfaldað þær eins og við hefðum viljað. Við erum að skoða hvort það séu ódýrari lausnir til að fara í þær með öflugri hættu. Það tekur Vegagerðina smá tíma að skoða það en væri jákvætt ef niðurstöðurnar leiddu til þess.“

Ein af þeim brúum sem endurbyggja þarf í vegakerfinu er yfir Jökulsá á Fjöllum. Búið var að hanna hana fyrir gosið í Holuhrauni en það breytti aðstæðum.

„Það komu upp nýjar sviðsmyndir varðandi hamfaraflóð bæði í Jökulsá og Skjálfandafljóti sem urðu til að setja verkið niður á núllpunkt. Nú er komin tillaga um aðra staðsetningu og hönnun mannvirkis sem á að geta tekið við stórum flóðum í Jökulsánni. Nú er spurning hvenær kemur fjármagn í verkið,“ sagði Hreinn.

Skýrsla um legu Hringvegar ekki hulduplagg

Frá Djúpavogi var spurt um nýjan veg yfir Öxi. Jón gaf ekkert út um hann annað en hann væri „mikilvæg samgöngubót sem stytti vegalengdir verulega.“ Þá hefði gerð Axarvegar ekkert með það að gera hvar þjóðvegur 1 liggi.

Nokkuð var á fundinum spurt út í skýrslu legu þjóðvegar númer 1 um Austurland, það er hvort hann skuli liggja áfram um Breiðdalsheiði eða vera færður niður á firði. Vegagerðin vann skýrslu um það að beiðni fyrrverandi ráðherra samgöngumála. Hún mun að mestu tilbúin en hefur ekki verið gerð opinber.

Hreinn sagði að skýrslan væri orðin að meira máli en efni hefðu staðið til. Hún væri í drögum og yrði afhent ráðherranum með formlegum hætti á næstu dögum. Hann sagði að hún væri „ekki hulduplagg.“

Rýmra um vetrarþjónustu

Breiðdælingar gætu hins vegar átt von á aukinni vetrarþjónustu yfir heiðina en hún var skorin verulega niður eftir hrun. „Hvergi var jafn mikill niðurskurður og í samgöngumálum. Við höfum ekki getað komist í sama farið aftur og það var 1,5 milljarða skuldahali á vetrarþjónustunni sem jókst í hitt í fyrra með erfiðum vetri.

Hann var þurrkaður út í fyrra og fjárveitingar nú eiga að duga fyrir þokkalegu ári núna. Vonandi verður aðeins bætt í næsta ár og þá getum við aftur rýmkað þjónustuna. Breiðdalsheiðin verður skoðuð þegar við höfum þennan ramma. Umferð, ekki síst okkar eigin fólks, hefur aukist og það þarf að komast á milli allt árið.“

Ráðherrann nýtti hins vegar fundinn til að tala fyrir veggjöldum. Hann vildi meira að með þeim yrði sótt í vasa ferðamanna til að greiða íslenska uppbyggingu. Skattheimtan yrði á leiðum næst borginni. Fjármögnun þeirra á þann hátt myndi leiða til þess að rýmka myndi um framkvæmdir víðar um landið sem væri þá hægt að ráðast í fyrr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.