„Skiptir máli að fólk geti sótt sér nám við hæfi um allt land“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir frumkvæði og harðfylgni Austfirðinga lykilinn að því að samið hafi verið um að háskólanám hefjist í fjórðungnum eftir tvö ár. Hún hefur trú á að námið muni efla fjórðunginn.

„Ég hef þá sýn að það þurfi alltaf að vera ákveðið eignarhald á því sem verið sé að gera eigi það að takast. Í grasrótinni verður að vera áhugi fyrir framför og framvindu mála.

Það gengur ekki að ráðuneytið setji markmið og ætli öðrum að fylgja þeim eftir. Það gengur ekki ef enginn hefur áhuga.

Hér koma saman Austurbrú, Háskólinn á Akureyri, atvinnulífið, þingmenn og sveitarstjórnarfólk að máli sem búið er að vinna að í 25 ár þannig að fyrir liggur skuldbinding um að við verðum komin á þann stað haustið 2021 að búið verði að ráða inn kennara.“

Þetta sagði Lilja í samtali við Austurfrétt eftir að hún og Einar Már Sigurðarson, stjórnarformaður Austurbrúa, höfðu skrifað undir samning um samstarf um áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi.

Frumgreinadeild 2021

Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að háskólanám í hagnýtri iðnaðartækifræði hefjist í fjórðungnum haustið 2022. Í millitíðinni, haustið 2021, hefjist kennsla í frumgreinadeild þar sem væntanlegir háskólanemar geta undirbúið sig fyrir það sem koma skal. Þá er gert ráð fyrir að ráðnir verði tveir kennarar og tveir starfsmenn á skrifstofu til að undirbúa háskólakennsluna.

Til að þetta gangi allt eftir verður settur á fót stýrihópur með aðkomu helstu hagsmunaaðila, þar með talið fulltrúa frá ráðuneytinu. Það mun að auki ráða verkefnastjóra. Stýrihópurinn mun fá næg verkefni. Þótt búið sé að ákveða að kennt verði í staðnámi liggur ekki enn fyrir hvar.

Að auki er gengið út frá því að einn þeirra háskóla sem þegar eru í landinu verði bakhjarl háskólasetursins, en ekki er enn ráðið hver þeirra það verður. „Við munum nýta bæði hinn hagnýta og fræðilega bakgrunn sem er í viðkomandi háskóla.“

Fjárhagslegt framlagt ríkisins hefur heldur ekki enn verið nákvæmlega skilgreint. „Við eigum eftir að ganga frá því en við tökum þátt í undirbúningnum. Við höfum stóraukið framlag til háskólastigsins undanfarin tvö ár og munum setja fjármuni af þeim lið inn í þetta,“ segir Lilja.

Eykur möguleika á landsbyggðinni

Þótt mikil vinna sé eftir markar samningurinn sem undirritaður var á laugardag mikil tímamót í þróun háskólastarfs á Austurlandi sem Lilja er sannfærð um að hafi jákvæð áhrif á samfélagið. „Við erum að auka fjölbreytileika námsframboðs um allt land. Það skiptir máli að fólk geti sótt sér nám við hæfi um allt land.

Ég sé fyrir mér að með þessu aukist möguleikar íbúa á landsbyggðinni til að sækja sér háskólanám með samstarfi við stærri háskóla um útibú. Við finnum gríðarlegan áhuga alls staðar í atvinnulífinu og þetta nám er verið að smíða í kringum þörfina sem er hér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.