Skilorðsbundin refsing með skilyrðum fyrir árás á sambýliskonu

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 90 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á sambýliskonu sína. Skilorðsbindingin er þó skilyrðum háð.

Samkvæmt dóminum réðist maðurinn á konuna á heimili þeirra í sumar. Hann kýldi hana ítrekað í andlit, höfuð og líkama, sparkaði í hana og tók kverkataki. Hún hlaut mar og bólgur.

Í niðurstöðum segir að háttsemin hafi verið alvarleg. Skýlaus játning og samvinna við rannsókn málsins eru metin manninum til tekna en hann kallaði lögreglu sjálfur að húsi þeirra umrædda nótt. Þá kemur fram að hann hafi leitað sér aðstoðar sálfræðings síðustu mánuði. Parið býr enn saman.

Refsingin er 90 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Skilorðið er þó háð skilyrðum. Manninum skal skipaður umsjónarmaður af hálfu Fangelsismálastofnunar. Honum er meðal skylt að hlíta fyrirmælum umsjónarmannsins. Þá þarf maðurinn að sækja sálfræðitíma næsta árið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar