Skemmdir eftir mikla vatnavexti um helgina

Úrhellisrigning víða um Austurland á laugardag olli miklum vatnavöxtum í fjórðungnum. Rafmagnsstrengur fór í sundur í Fljótsdal og aurskriða lokaði hringveginum í Berufirði um tíma.

Í annað skiptið á fáeinum dögum hækkaði vatnsborð í ám í Djúpavogshreppi um tvo metra á örfáum tímum í úrhellisrigningu á laugardag. Heimamenn þar segja að rignt hafi linnulaust frá föstudagskvöldi til hádegis á sunnudegi.

Á laugardag féll skriða á Hringveginn innan við Búlandsá í Berufirði og lokaði honum. Í Hamarsfirði var allt á floti og lá vatnið í gólfi brúarinnar yfir Hamarsá. Myndir og myndbönd frá helginni má sjá á heimasíðu Djúpavogshrepps.

Rafmagnslaust varð í gærmorgun í Fljótsdal og Skriðdal eftir að strengur fór í sundur í vatnavöxtum í Kelduá. Um hádegi var búið að einangra svæðið sem bilunin hafði áhrif á og koma rafmagni víða á aftur.

Jökulsá í Fljótsdal óx hátt í metra á fjórum tímum og náði hámark um það bil sem Fljótsdælingar byrjuðu að rétta í Melarétt.

Vatnavextir og þoka setti göngur í Breiðdal úr skorðum. Á Gilsá mældist sólarhringsúrkoman 110 mm frá laugardegi til sunnudags.

Rigningunni er síður en svo lokið þótt hlé sé á henni um stundarsakir. Veðurstofan hefur gefið út viðvörun um rigningu á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum á morgun. Mismikil rigning er í veðurkortunum eystra svo langt sem þau ná.

fljotsdalur vatn 20170925 0003 web

fljotsdalur vatn 20170925 0009 web

fljotsdalur vatn 20170925 0013 web

fljotsdalur vatn 20170925 0026 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.