Skattur sem kemur verst niður á fyrirtækjum í Fjarðabyggð

Bæjarráð Fjarðabyggðar mótmælir því að til standi að hækka veiðigjöld á uppsjávarstofna, umfram aðra, um tíu prósent. Bæjarfulltrúi segir þá gjaldtöku sem boðuð er ekki standa undir sér til lengri tíma litið.

„Það segir sig sjálft að þessi skattur kemur verst niður á fyrirtækjunum og samfélögunum í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum – þar sem uppsjávartegundir vega langmest í kvótakörfu félaganna,“ segir Jens Garðar Helgason, bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í frumvarpi um veiðigjöld, sem lagt var fram á Alþingi í haust, er lagt til að verðmæti alls uppsjávarafla verði hækkað um 10%. Forsenda þess er að gögn um verðmæti botnfiskafla og uppsjávarafla séu ekki sambærileg vegna ólíkra aðstæðna við við veiðar og vinnslu.

Hækkun á skattstofni

Jens Garðar segir að hlutfallið virðist ekki hátt við fyrstu sýn en fleira búi að baki. „Í raun er verið að hækka skattinn úr 33% í 46 – 66%. Ef aflaverðmæti þitt er 100 krónur og kostnaður 80 kr. þá er reiknigrunnurinn 20 kr. og af honum eru tekin 33% skattur.

Hins vegar á uppsjávartegundir er bætt við 10% á 100 kr. aflaverðmæti sem þýðir að aflaverðmætið fer úr 100 kr. í 110 kr. Því hækkar reiknigrunnurinn úr 20 kr. í 30 kr. eða um 50% og gjaldið er því 33% af 30 kr. í stað 20 kr.“

Fjarðabyggðarskattur

Aukagjaldið hefur af sumum verið kallað Fjarðabyggðarskattur og var gagnrýnt í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar fyrir skemmstu. Í bókuninni er minnt á í sveitarfélaginu starfi þrjú stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki sem fjárfest hafi mikið í uppbyggingu við veiðar og vinnslu á uppsjávarafurðum.

Þessi fyrirtæki séu máttarstólpar samfélagsins í Fjarðabyggð auk þess að leggja mikil til íslensks samfélags. Vilji stjórnvöld leggja á veiðigjöld sé það krafa að ekki séu lögð gjöld á eina grein umfram aðrar.

„Ef stjórnvöld ætla að leggja sérstakan skatt á uppsjávartegundir þá ættu menn bara að koma hreint fram og hækka þá skattinn í þá prósentu sem menn vilja. Það væri meira gagnsæi en hin reiknikúnstin.

Það sjá allir að 45 – 66% skattur er ekki sjálfbær til lengri tíma. Það er tæplega hægt að tala um meðalhóf í skattheimtu þegar að tölurnar eru komnar í þessar hæðir.“

Sveiflur í greininni

Talsmenn sjávarútvegsfyrirtækjanna í Fjarðabyggð hafa einnig gagnrýnt að forsendur veiðigjaldanna séu miðaðar við síðustu tíu ár sem hafi verið þau langbestu í íslenskum sjávarútvegi.

„Við vitum að það getur árað misjafnlega í atvinnugrein sem byggir afkomu sína á auðlindum sjávar. Ýmsir þættir sem við ráðum ekki við geta haft mikil áhrif á afkomu fyrirtækjanna eins og stærð fiskistofna og verð á mörkuðum en 98% af öllum afla er flutt út á erlenda markaði.

Því er mikilvægt að ríkið stilli skattheimtu sína í hóf og hún dragi ekki allan þrótt úr greininni til að fjárfesta og sækja fram,“ segir Jens Garðar.

Gjaldið fyrir uppsjávaraflann kom til umræðu á opnum fundi Kristjáns Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, á Eskifirði í lok október. Aðspurður þar sagðist Kristján ekki hafa mikla trú á að ákvæðinu yrði breytt.

Allir eiga að njóta ávaxtanna

Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar er einnig hnykkt á að sjávarútvegsfélög fái umfram önnur hlutdeild í veiðigjöldum í ljósi þeirra fjárfestinga sem þau hafi lagt út og hvar verðmætin verða til.

Á fundinum á Eskifirði sagðist ráðherrann skilja á hvaða grunni slíkar kröfur byggði en hann féllist ekki á þær meðan hann væri trúr því að fiskveiðiauðlindin væri sameign þjóðarinnar og verið væri að innheimta gjald fyrir aðgengi að auðlindinni.

Hann varaði einnig við að það sveitarfélag sem mest græddi á slíku ákvæði væri Reykjavíkurborg. „Mér finnst nóg renna utan af landi í þá hít,“ sagði Kristján Þór.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.