Sjómannaverkfall: Það er ekki gaman að vita af fólki sem ekki hefur vinnu

Fimmtudagurinn var langur hjá Grétari Ólafssyni, formanni sjómannadeildar AFLs starfsgreinafélags en hann þurfti í langt ferðalag til að sitja samningafund í sjómannadeilunni. Hann segir samningamenn vel meðvitaða um þau áhrif sem verkfallið hefur.


„Ég fór héðan klukkan fjögur um nóttina, þegar fór að lægja. Við vissum að það yrði ekki flogið þannig það var ekki um annað að ræða,“ segir Grétar um ferðalag sitt á samningafundinn á fimmtudag.

Hann býr á Vopnafirði svo hann keyrði suður til Reykjavíkur á fundinn sem stóð í tvo tíma. Að honum loknum keyrði hann til baka og var kominn heim á miðnætti. „Þetta er hluti af djobbinu, fyrst ég tók það að mér.“

Hann sagðist ekki finna mikið fyrir ferðaþreytunni þegar Austurfrétt hafði tal af honum seinni part föstudags. „Ég hef það bara í fínt. Ég ligg bara í símanum og tala.“

Hann reynir eins og hann getur að halda góðu sambandi við baklandið. Aðspurður um hvernig hljóðið sé svarar hann: „Mönnum finnst þetta ekki nógu gott en halda áfram. Það vill enginn fara í verkfall, sama hvaða stétt það er. Það er neyðarúrræði. Kjarasamningurinn okkar rann hins vegar út árið 2011 þannig ég tel að íslenskir sjómenn séu frekar þolinmóðir menn.“

Erfitt að sinna félagsmálunum af sjónum

Grétar kom sjálfur í land fyrir nokkrum árum. Verkfallið kemur við hann eins og félaga hans á sjónum. „Ég hef ekkert að gera nema vinna fyrir sjómennina. Það gildir það sama um mig og alla aðra.“

Hann hefur þar mest starfað í löndun. „Sá sem ætlar að vinna í félagsmálum sjómanna þarf helst að vera í landi. Það þarf að mæta á alls konar fundi hér og þar og það er erfitt að taka þátt í þeim öllum ef þú ert á sjó.“

Lærdómur að sitja í samninganefnd

Verkfall sjómanna hefur staðið síðan fyrir jól og síðan um miðjan janúar virðist allt sitja fast í samningaviðræðunum. Grétar er einnig ritari Sjómannasambands Íslands og tekur nú þátt í sínum fyrstu kjarasamningsviðræðum.

„Það er mikill lærdómur að vera í samninganefnd. Það eru ýmsar hliðar á vinnunni sem maður vissi ekki um áður en maður byrjaði.

Viðræðurnar snúast fyrst og fremst um fundarsetu. Hún er ekki skemmtileg þannig séð en einhver þarf að sjá um hana. Ef ekki ég þá einhver annar.“

Allt stopp á Vopnafirði

Áhrif verkfallsins gætir víða í samfélaginu enda lítill fiskur til að vinna og minni umsvif ýmissa þjónustu fyrirtækja. Samkvæmt skýrslu sem kom út í gær eru 2500 starfsmenn í fiskvinnslu án vinnu og hið opinbera hefur orðið af tekjum upp á 3,6 milljarða króna.

„Þeir sem sitja í samninganefndinni eru alveg meðvitaðir um að þetta hefur svakaleg áhrif. Það er ekki gaman að vita af fólki sem ekki hefur vinnu, það tekur í. Verkfall er neyðarúrræði.“

Vopnafjörður er eitt þeirra sveitarfélaga sem verkfallið hefur hvað mest áhrif á enda treystir samfélagið þar mjög á útgerð HB Granda. „Hér er allt stopp eins og á öðrum fjörðum. Menn bíða bara eftir að þetta klárist og við reynum hvað við getum.“

Grétar á félagsfundi. Mynd: AFL/Valborg Jónsdóttir 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.