„Sjóðurinn mikil lyftistöng fyrir okkar afreksfólk“

Reglugerð fyrir Afrekssjóð Guðmundar Bjarnasonar var undirrituð í vikunni af þeim Gunnþóri Ingvasyni framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefáni Má Guðmundssyni formanni Íþróttafélagsins Þróttar í vikunni, en samþykkt var á aðalfundi Síldarvinnslunnar í fyrra að stofna sjóðinn og skyldi Síldarvinnslan árlega veita honum eina milljón króna til ráðstöfunar.



Sjóðurinn er stofnaður í minningu Guðmundar Bjarnasonar sem lést á síðasta ári. Guðmundur var formaður Þróttar á árunum 1984 til 1987 og formaður knattspyrnudeildar félagsins á árunum 1976-1985. Þá sat Guðmundur í stjórn Knattspyrnusambands Íslands á árunum 1978-1991. Sæti í stjórn Síldarvinnslunnar átti Guðmundur á árunum 1991-2005 auk þess sem hann sat í stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna frá 1984 til dauðadags en stjórnarformaður félagsins var hann frá 2005. Guðmundur gegndi starfi bæjarstjóra, fyrst í Neskaupstað og síðan í Fjarðabyggð, á árunum 1991-2006.

„Afrekssjóðurinn verður fyrir íþróttaiðkendur, 14 ára og eldri og verður sjóðurinn mikil lyftistöng fyrir okkar afreksfólk sem oft velst í krefjandi og kostnaðarsöm verkefni á borð við úrvalshópa tengda landsliðum verkefni. Að hafa aðgang að styrkjum á borð við þessa skiptir því verulegu máli,“ sagði Stefán Már í samtali við Austurfrétt.

Stjórn Íþróttafélagsins Þróttar ásamt einum fulltrúa frá Síldarvinnslunni skipa sjóðsstjórnina. Tilgangur sjóðsins er að styrkja einstaklinga innan Þróttar sem náð hafa framúrskarandi árangri í íþrótt sinni. Á það við þegar viðkomandi hefur öðlast rétt til keppni á fjölþjóðlegum mótum, verið valinn í landslið, unnið Íslandsmeistaratitil, sett Íslandsmet eða skarað fram úr með eftirtektarverðum hætti. Sækja þarf um styrk úr sjóðnum og er gert ráð fyrir að styrkjum verði úthlutað tvisvar á ári.

Ljósm: Smári Geirsson. Frá vinstri, Gunnþór Ingvason og Stefán Már Guðmundsson við undirritun reglugerðar um Afreksmannasjóð Guðmundar Bjarnasonar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.