Sjálfboðaliðar án kennitalna og atvinnuleyfa við störf í Vallanesi

Lögregla tók í dag skýrslu af sjálfboðaliðum við störf hjá Móður Jörð í Vallanesi. Gerðar voru athugasemdir við að sjálfboðaliðarnir voru hvorki með kennitölur né ráðningarsamninga.


Þetta kemur fram í frétt frá AFLi Starfsgreinafélagi en starfsmenn þess, Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra heimsóttu búið í dag til að kanna skráningu starfsmanna og ráðningarkjör. Þeir kvöddu til lögreglu til að taka skýrslu af sjálfboðaliðum.

Í fréttinni segir að við störf hafi verið fimm sjálfboðaliðar við garðyrkjustörf og nokkrir launaðir starfsmenn, flestir erlendir og tiltölulega nýkomnir til landsins.

Tveir starfsmenn voru með kennitölur og aðrir þrír áttu von á kennitölum næstu daga. Enginn var með undirritaðan ráðningarsamning.

Ekki hafði verið sótt um kennitölur fyrir sjálfboðaliðana og einhverjir þeirra voru frá löndum utan Evrópska efnahagsvæðisins. Þeir hafa þar með ekki heimild til að vinan á Íslandi án atvinnuleyfis.

Haft er eftir forsvarsmönnum forráðamanna Móður Jarðar að sjálfboðaliðarnir hafi verið á vegum samtaka sem sendi fólk víða um heim til að vinna sjálfboðaliðastörf. Einnig hafi komið fram að um einhvers konar námssamninga væri að ræða.

Í yfirlýsingu AFLs er bent á að hlunnindi svo sem fæði og húsnæði séu skattskyld. Vinna sjálfboðaliða á samkeppnismarkaði sé aðeins angi af svartri atvinnustarfsemi. Með henni sé grafið undan öðrum sem standi skil á öllum sínum gjöldum. Verkalýðshreyfingin hafi samið um lágmarkskjör fyrir störf á býlum.

„Það gerir samningsstöðuna verri en ella - að bændur virðast geta sótt sér lífsþreytta millistéttarunglinga til nágrannalandanna sem koma hingað uppá sportið og ganga í störf fólks sem þarf að lifa af launum sínum. Þessir bændur selja síðan sínar afurðir á sömu mörkuðum og aðrir og er ekki að sjá að tekið sé tillit til þess að vinnuaflið sé ókeypis þegar varan er verðlögð.“

Mynd: AFL Starfsgreinafélag

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.