Síldarvinnslan hættir starfsemi fiskimjölsverksmiðjunnar í Helguvík

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur ákveðið að hætta starfsemi fiskimjölsverksmiðju sinnar í Helguvík. Fyrirtækið spáir að frekari hagræðing sé framundan í fiskimjölsiðnaðinum hérlendis.

Í tilkynningu Síldarvinnslunnar frá í dag segir að móttöku hráefnis í Helguvík verði hætt að lokinni loðnuvertíð, sem reyndar sé enn fullkomin óvissa um hvort verði.

Áform um lokun verksmiðjunnar voru kynnt í dag. Hún felur í sér uppsögn sex starfsmanna auk þess sem hún hefur áhrif á verktaka- og þjónustufyrirtæki í nágrenninu. Í tilkynningu segir að forsvarsmenn fyrirtækisins vonist til að önnur uppbygging á Suðurnesjum komi í veg fyrir að lokun verksmiðjunnar hafi þar alvarleg áhrif.

Ástæða lokunnar er sögð sú að rekstur verksmiðjunnar standi ekki lengur undir sér. Hráefni til fiskimjölsverksmiðja hafi minnkað en kostnaður hækkað sem þrýsti á hagræðingu. Bent er á að hérlendis starfi 11 fiskimjölsverksmiðjur en þrjár í Danmörku sem samanlagt taki við 800 þúsund tonnum á ári til vinnslu.

Samkvæmt tölum frá Síldarvinnslunni tóku íslensku mjöl- og lýsisvinnslurnar á móti 663 þúsund tonnum í fyrra og hefur magnið haldist nokkuð stöðug frá árinu 2006. Magnið var hins vegar um tvöfalt meira á ári áratuginn þar á undan. Bent er á að reksturinn í Helguvík hafi byggst á loðnu, sem farið hafi minnkandi vegna minni kvóta og óvissu um veiðarnar.

Ekki er fyrirséð að þessi þróun breytist, meðal annars vegna aukinnar framleiðslu til manneldis. Þess vegna megi búast við áframhaldandi samdrætti í fiskimjölsiðnaðinum.

Síldarvinnslan hefur rekið verksmiðjuna í Helguvík frá árinu 1997. Unnið verður að því að koma búnaði og fasteignum þar í sölu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.