Sigurður Ingi frestar fundum á Austurlandi

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur frestað þremur opnum stjórnmálafundum sem hann hafði boðað á Austfjörðum í dag. Enn stendur til að halda fund á Vopnafirði á morgun.

Til stóð að halda fundi á Djúpavogi, Egilsstöðum og í Neskaupstað í dag.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins segir að dagskrá ráðherrans hafi breyst og því þurfi að fresta fundunum. Til hafi staðið að ráðherrann yrði á ferðinni í nokkra daga. Það hafi verið metnaðarfullt í ljósi þess að dagskrá ráðherra og formanns stjórnmálaflokks sé allltaf þétt.

Enn stendur til að halda fund á Vopnafirði klukkan 12:00 á morgun í félagsheimilnu Miklagarði. Þaðan stóð til að Sigurður Ingi héldi áfram um Norðurland. Helgi segir að fundað verði á Vopnafirði á morgun með þeim fyrir vara þó að dagskrá Sigurðar Inga geti breyst.

Sigurður Ingi er meðal annars ráðherra samgöngumála og sveitastjórnarmála. Eftir fannfergi og ófærð á Austurlandi yfir páskana mátti búast við að umræðan um samgöngumálin yrði óvenju hávær.

Helgi segir þó að fundirnir hafi ekki verið settir upp með sérstakri dagskrá heldur hafi átt að vera almennt opnir stjórnmálafundir þar sem gestum gæfist tækifæri til að spyrja ráðherrann spurninga.

Til stendur að finna nýjar dagsetningar fyrir fundina sem halda átti í dag. Þær liggja ekki enn fyrir.

Frestunin kemur á sama tíma og staðfest hefur verið að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, íhugi forsetaframboð. Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði á Vísi í gærkvöldi að hún væri að hugsa málið. RÚV greinir frá því að þingflokkur Framsóknarflokksins hittist eftir hádegi í dag líkt og þingflokkar hinna tveggja stjórnarflokkanna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki á fundi NATO í dag eins og reiknað var með.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.