Sigrún Blöndal: Hver vill vera mamman sem fjarlægði leiktækin?

Konur í sveitastjórnum þurfa oft að velja á milli vinnunnar, fjölskyldunnar og stjórnmálanna. Það gerir þær margar afhuga stjórnmálunum. Ýmis önnur streita sem fylgir gerir starfið ekki aðlaðandi. Seta í sveitarstjórnum verði að flokkast sem starf en ekki áhugamál.


Þetta kom fram í máli Sigrúnar Blöndal, forsetja bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formanns Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, á málþingi í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna sem sveitarfélagið stóð nýverið fyrir. Sigrún tók fyrst sæti í sveitarstjórn vorið 2010 og var í minnihluta fyrsta kjörtímabilið.

„Það lá ekki einbeittur brotavilji að baki því að ég bauð mig fram,“ sagði Sigrún. Hún sagði tímann sem ætlaður var í starfið hafa litið sakleysislega út. Bæjarstjórnin fundi síðdegis fyrsta og þriðja miðvikudag hvers mánaðar og fyrir þá sé greitt.

Útvarpsstjórinn eða börnin?

Aðrir fundir skapi hins vegar álagið auk ýmissa viðburða sem ætlast sé til að bæjarfulltrúar sæki. Aðrir fundir eru oft á vinnutíma og stundum þarf að vinna á öðrum tímum til að bæta upp glataðar stundir. Þá skapast togstreitan.

„Það þarf alltaf að forgangsraða verkefnum. Það er fundur með útvarpsstjóra um vonlaust dreifikerfi á sama tíma og fundur um einelti í skólanum. Þú getur sent barnið eitt, sem lítur út fyrir að vera foreldralaust og þú áhugalaus um að mæta, eða reynir að senda stóru systur og mæta á fundinn með útvarpsstjóranum.“

Úrelt viðhorf og kerfi

Hún segir viðhorfið gagnvart störfum í sveitastjórnarmálum vera afturhaldssamt og ekki aðlaðandi fyrir nýtt fólk.

„Sveitarstjórnarstigið hefur lítið þróast í áratugi. Það er litið svo á að það eigi að vera hugsjónastarf í þágu samfélagsins, unnið af samviskusemi fremur en hárri þóknun.

Störf í sveitarstjórnum teljast ekki vinna. Fólk á bara að sinna þeim eftir hefðbundinn vinnutíma. Það er engin áhersla á að fólk minnki við sig þar sem vinnan sé síðdegis. Þetta eigi bara að vera eins og í gamla daga þegar hist var heima hjá einum og konan bakaði. En þá voru ekki málefni fatlaðs fólks, byggingareglugerðir, barnaverndarmál og fleira sem bæst hefur við.

Þess er vænst að við sýnum því sem er að gerast í sveitarfélaginu áhuga. Mæta á körfuboltaleik eða opnun listasýningar. Það getur enginn komið í staðinn fyrir þig. Þú gafst kost á þér en stundum er freistandi að vera bara heima að elda matinn. Fjölskyldan verður því undir.“

Leikskólagjöldin í saumaklúbbnum

Síðan er það álagið sem fylgir því að þurfa að taka umdeildar ákvarðanir og verja þær. „Tilfinningin er ekki sú að vinunum fjölgi meðan setið er í sveitarstjórn. Það er ekki þægilegt að þurfa að hækka leikskólagjöld og svara fyrir það í næsta saumaklúbbi.

Hver vill vera mamman sem fjarlægði leiktækin? Það breytir engu hvort heilbrigðiseftirlitið gerði kröfu um það eða ekki. Það verða margir sárir og reiðir og þeim mætirðu daglega í búðinni.“

Verður að verða að starfi

Þessar aðstæður gera ekki fýsilegt fyrir nýtt fólk að gefa kost á sér í sveitastjórnir. Í síðustu þremur sveitastjórnarkosningum hefur orðið um helmings endurnýjun á fulltrúum og konur virðast endast sérstaklega stutt.

„Mín tilfinning er að unga fólkið, ekki síst konur, gefist upp undir álaginu að sinna heimilinu, vinnunni og að vera kjörinn fulltrúi. Breytingarnar eru örar og það er alltaf nýtt fólk að kynna sér ný málefni.“

Hún leggur áherslu á að breytingar verði gerðar til að gera starfið manneskjulegra. „Það hellist yfir mig óþol þegar sagt er fyrir kosningar að konur eigi að gefa kost á sér. Hvernig eiga ungu konurnar að bæta við sig eins og álagið er á þeim fyrir?

Það verður að líta á þetta sem starf en ekki áhugamál og sé greitt fyrir það þannig að fulltrúar geti minnkað við sig vinnu. Við verðum að ákveða hvernig við styrkjum sveitastjórnarstigið, ekki bara með flutningi verkefna, heldur eflingu þeirra sem þar starfa. Annars verður þetta stöðugt kapphlaup.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.