Sigmundur Davíð: Landsspítalinn rekur áróður síðustu fjóra mánuði hvers árs

Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis segir stjórnendur Landsspítalans dreifa hörmungarsögum þaðan til að tryggja spítalanum aðgang að fjármagni. Sjúkrahúsmál séu meðal þeirra dýru en umdeildu kostnaðarsömu aðgerða sem ráðast þurfi í.


„Margar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa ekki notið sama aðgangs að fjármagni og Landsspítalinn sem duglegur er að reka sinn áróður síðustu fjóra mánuði hvers árs þegar sagðar eru hörmungarsögur af honum í fjölmiðlum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fyrir skemmstu.

Hann sagði málefni Landsspítalans að mörgu leyti lýsandi fyrir staðnaða hugsun í kerfinu. Læknagarður hafi staðið hálfkláraður í 40 árum og á meðan beðið sé eftir að halda áfram stoppað í með „ómarkvissu klastri hingað og þangað.“

Hann nefndi heilbrigðismálin sem dæmi um málaflokk þar sem nauðsynleg sé að þora að hrista upp í kerfislægri hugsun þótt það verði umdeilt. Hann nefndi ákvörðun um að fela Háskólanum á Akureyri sem dæmi um slíka aðgerð.

Sífellt dýrara að snúa keðjuverkuninni við

„Öll hugsun kerfisins var að náminu væri best komið í Háskóla Íslands, ef ekki þar þá í Vatnsmýrinni hinu megin. Það var reiknað út að innviðirnir væru bestir. Þess vegna þurfti pólitískt og afgerandi sterkt inngrip til að koma málinu á rétta braut og stuðla að jákvæðri keðjuverkum frekar en þeirri sem er innbyggð.

Byggðamál eru ekki tapað fé. Þetta eru peningar sem skila sér til baka með tímanum en inngripið til að snúa keðjuverkuninni við verður sífellt dýrara með tímanum. Það er ekki sparnaður til lengri tíma litið þegar menn kjósa að setjast annars staðar að eða flytja starfsemi sína.

Þrátt fyrir lýðræðislegan vilja vinna tannhjól kerfisins stundum í aðra átt en það kostar vinnu, jafnvel afgerandi og umdeilt pólitískt inngrip til að snúa þeim við. Tækifærin eru mikil en kerfið þarf að vera vinna með í þá átt. Það er ábyrgð okkar stjórnmálamannanna að tryggja að það geri það.“

Markaðurinn snýst með

Sigmundur sagði ekki eingöngu tannhjól hins opinbera kerfis snúast í öfuga átt við vilja fólksins heldur væri oft brestur í hinum frjálsa markaði. „Hinn frjálsi markaður hefur tilhneigingu til að ýta undir keðjuverkunina hverju sinni. Þegar hún er neikvæð eða stöðnuð þarf ríkið að grípa inn í.“

Fjárfestingar, eða öllu heldur skortur á þeim á landsbyggðinni, væri dæmi þar um. Sigmundur sagði annað mat vera lagt á tækifæri í ferðaþjónustu á Seyðisfirði en Reykjavík. Samþjöppun ferðaþjónustu væri „líka neikvæð fyrir Reykjavík því miðbænum er rústað í byggingu sem stærstra hótela.“

Hann kvaðst vilja að við skipulagningu fjármálakerfisins tryggði ríkið að til staðar væri banki sem hugsaði um samfélagið allt en ekki hámarksarð til skamms tíma. Dæmin sýndu að slíks banka þyrftu við.

„Við þekkjum dæmið um álkaplaverksmiðjuna héðan af Seyðisfirði. Veðhæfi fasteignanna var ekki nógu gott vegna staðsetningarinnar og þess vegna fékkst ekki lán. Sams konar verkefni annars staðar hefði hins vegar fengið lánsfjármagn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.