Sigmundur Davíð: Kom ekki til greina að fara í sérframboð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrum forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er ákveðinn í að leiða flokkinn í komandi kosningabaráttu í Norðausturkjördæmi. Hann segist vilja einbeita sér að málefnum kjördæmisins á næsta kjörtímabili.


Sigmundur beið lægri hlut í formannskjöri flokksins í síðustu viku og í kjölfarið voru uppi áhöld um hvort hann yrði áfram leiðtogi flokksins í kjördæminu, líkt og hann var kosinn til um miðjan september.

Hann kom austur á þriðjudagskvöld ásamt nýkjörnum varaformanni, Lilju Dögg Alfreðsdóttur og Sigurði Hannessyni, fyrrum formanni málefnanefndar flokksins. Eftir því sem Austurfrétt kemst næst var tilgangur ferðarinnar meðal annars að hitta þá Austfirðinga sem ósáttastir voru við niðurstöðu formannskjörsins.

„Við vorum hér að hitta nokkra Framsóknarmenn. Við vorum að ræða stöðu mála í flokknum eftir flokksþingið og komandi kosningar. Mig langaði að kynna Lilju fyrir stuðningsmönnum mínum og vinum hér fyrir austan og ég held hún hafi gaman af því.

Við vorum að ræða málin innbyrðis. Fundirnir voru ekki margir enda ekki langur aðdragandi að ferðinni. Þetta var fyrst og fremst skemmtileg ferð til að hitta gott fólk eftir flokksþingið,“ segir Sigmundur Davíð í samtali við Austurfrétt.

Sigmundur fór suður á fimmtudag áður en hann kom aftur á föstudag á tveggja daga þing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Skuldbindingar gagnvart kjördæminu

Sigmundur segist finna mikinn stuðning meðal Framsóknarmanna á Austurlandi. „Margir þeirra hafa reynst mér vel alla tíð síðan ég byrjaði í pólitíkinni og eru ósáttir við hvernig fór á flokksþinginu. Við sammæltumst hins vegar um að einbeita okkur að málefnum kjördæmisins. Áherslan hjá mér í þessum kosningum og í framhaldi af þeim verður á þau. Aðrir taka að sér að vera leiðandi í að leggja fram tillögur um landsmálin að öðru leyti.“

Dagana eftir flokksþingið voru uppi vangaveltur um hvort Sigmundur færi í sérframboð. Spurður hvort það hafi komið til greina svara hann einfaldlega „Nei,“ en heldur svo áfram:

„Auðvitað var maður mjög svekktur yfir hvernig þetta fór og aðdragandanum. Ég var hins vegar nýbúinn að ná mjög góðu kjöri sem oddviti flokksins í kjördæminu og mér fannst ekki annað hægt en að halda áfram, ef vilji væri fyrir því hjá stuðningsmönnum hér.

Ég taldi mig hafa ákveðnar skuldbindingar gagnvart þeim og þessu kjördæmi. Mér fannst við geta haldið áfram á þeim grunni að við myndum einhenda okkur í kjördæmavinnuna og það varð úr.

Maður er auðvitað svekktur eftir flokksþingið, ég skal alveg viðurkenna það. Ég er dálítið undrandi á ýmsu sem gerðist en ég hugsa að það fari kannski best á að ræða það ekki í smáatriðum fyrr en eftir kosningar. En það er margt sem maður er mjög ósáttur við, ég skal alveg viðurkenna það.“

Ekki kjósa gegn formanninum

Af þeim samtölum sem Austurfrétt hefur átt við austfirska Framsóknarmenn um aðdraganda og atburði á flokksþinginu má ráða að skoðanir þeirra séu jafn skiptar og annars staðar á landinu. Sigmundur hefur löngum átt öflugt bakland í fjórðungnum enda hófst leið hans að formannsembættinu þar. Heldur virðist þó hafa kvarnast úr baklandinu þar sem Sigmundur Davíð og stuðningsmenn hans þóttu grafa sína eigin gröf með framgöngu sinni á flokksþinginu. Fylgismenn hans eystra viðurkenna bresti og mistök síðustu mánuði en segja Sigmund enn „málefnalega sterkasta“ þingmanninn.

Austfirðingarnir virðast takmarkaðan áhuga hafa á frekari væringum að sinni út af formannskosningunni. Farið hafi fram lýðræðisleg kosning og menn verði að sætta sig við úrslitin. Þolinmæðin virðist þó ekki mikil gagnvart nýjum formanni, Sigurði Inga Jóhannssyni, ef kosningaúrslitin verða ekki góð.

Sigmundur Davíð fékk mótframboð frá hinum þremur þingmönnum Framsóknarflokksins í oddvitasæti kjördæmisins. Þau stóð hann af sér með glæsibrag og fékk 72% atkvæða. Margir fulltrúar á þinginu töluðu hins vegar um að „erfitt væri að kjósa gegn formanninum.“ Sumir þeirra hafa síðan velt upp þeirri spurningu hvort úrslitin hefðu verið önnur ef flokksþingið hefði verið á undan.

Aðspurður segist Sigmundur sjálfur finna fyrir miklum stuðningi eystra. „Mér hefur þótt stuðningurinn við mig hér bara styrkjast við þessa atburði. Samband mitt við Framsóknarmenn hér hefur alltaf verið mjög gott, þeir hafa margir hverjir verið ótrúlega öflugir í að styðja mig eftir flokksþingið, tala við mig, hvetja mig og velta vöngum yfir hvað gera ætti í stöðunni. Þetta heldur manni gangandi og veitir manni styrk.“

Hefði viljað klára byggðamálin

Sigmundur Davíð segist mest sjá eftir því að ekki hafi verið hægt að leggja fram fjárlög á yfirstandandi þingi sem sýndu fram á sókn í byggðamálum. Ríkisstjórnin og „einkum Framsóknarflokkurinn hefðu þurft að sýna fyrir landsbyggðina að það skipti máli að hafa flokkinn við stjórnvölinn því hann er tilbúinn að fara í stórar, dýrar en skynsamlegar – jafnvel umdeildar – aðgerðir, því þannig er því farið um allar aðgerðir í byggðamálum sem skipta máli.“

Sigmundur nefnir ljósleiðaramál, samgöngubætur, heilbrigðisþjónustu og atvinnusköpun. „Ég hefði viljað sá þetta á kjörtímabilinu, þá hefði ég getað gengið stoltur til kosninga en nú er að berjast fyrir að þetta verði á nýju kjörtímabili.“

Ný störf hjá hinu opinbera eigi að verða til á landsbyggðinni og að veiðigjöld og önnur auðlindagjöld renni til uppbyggingar utan höfuðborgarsvæðisins. „Annars er þetta bara skattur á landsbyggðina.“

Sigmundur segist ákveðinn í að verða á ferðinni í kjördæminu fram að kosningum 29. október. „Já, ég geri ráð fyrir því að vera hér á ferðinni nánast allan tímann. Í þessari kosningabaráttu ætla ég að taka maður á mann aðferðina, heimsækja fólk og hitta það og spjalla við það. Ég mæti á einhverja framboðsfundi og slíkt en við skiptum þeim á milli okkar frambjóðendurnir. Ég verð á ferðinni alveg fram að kosningum að hitta fólk.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.