„Seyðisfjörður er þekktur fyrir veðursældina“

15,5 stiga hiti mældist á Seyðisfirði á ellefta tímanum í morgun sem verður að teljast óvenju hlýtt fyrir einn af fyrstu dögum janúarmánaðar. Seyðfirðingur segir íbúa gleðjast yfir góðu veðri þótt þeir séu ekki óvanir stökum hlýindadögum að vetri til.

„Það er vorfílingur á Seyðisfirði í dag. Bæjarbúar þurfa ekki mikið að dúða sig í svona stuttermabolsveðri,“ segir Bjarki Borgþórsson sem hefur meðal annars þann starfa að sinna eftirliti fyrir ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.

Hann hefur ekki áhyggjur af þeim í dag. „Það hefur verið að hlýna smá saman síðustu daga þannig það er ekki hætta á leysingaflóðum.“

Samkvæmt tölum frá Veðurstofu Íslands tók að hlýna á Seyðisfirði milli klukkan tvö og þrjú í nótt, hitinn jókst þá um tíu stig, úr tæplega þremur í 13.

Bjarki segir Seyðfirðinga þó ekki óvana hlýindadögum um hávetur. „Í suðvestanáttum getur orðið heitt hér yfir vetrartímann. Ég man eftir 18 stiga hita í febrúar fyrir nokkrum árum þannig við getum sagt að Seyðisfjörður sé þekktur fyrir veðursældina.“

Hitinn á Austurlandi í morgun á láglendi hefur víðast hvar verið yfir 10 gráðum það sem af er morgni. Samkvæmt spám er von á að hitinn endist fram að miðnætti. Þá mun hvessa hraustlega og varir blásturinn til hádegis á morgun.

Á bloggsíðu sinni segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur, að hitinn yfir Austurlandi komi langt sunnan úr höfum, vestan við hæðina miklu við Bretlandseyjar sem ráðið hefur miklu um veðrið á Íslandi að undanförnu.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.