Sendi 250 sleikipinna í grunnskólann vegna öskudags

Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir hárgreiðslumeistari á Reyðarfirði brá á það ráð að senda 250 sleikipinna í grunnskóla bæjarins fyrir öskudaginn sem er í dag. Þetta gerði hún vegna þeirra sóttvarna sem eru í gildi.


„Ég held að fleiri fyrirtæki og einstaklingar hafi gripið til þessa ráðs þar sem búið var að gefa út tilmæli um hvernig sælgætisgjafir ættu að fara fram í dag,“ segir Sigríður Hrönn. „Kennararnir sjá svo um að úthluta þessum sleikipinnum meðal barnanna.“

Fram kemur í máli hennar að undir eðlilegum kringumstæðum væri hún stöðugt að hlusta á börn syngja á hárgreiðslustofu sinni frá klukkan hálf tíu og framundir hádegið.

„Það hefur yfirleitt verð mikill og jafn straumur barna á stofuna mína á þessum degi. Og ég var hrifin af því að eldri börnin voru með þau yngri með sér,“ segir Sigríður Hrönn.

Fyrr í mánuðinum gaf aðgerðastjórn almannavarna út leiðbeiningar um hvernig ætti að standa að sælgætisgjöfum til barna í dag. Þar var beðið um að foreldrar og aðrir myndu gæta sérlega að sóttvörnum.

„Auk hefðbundinna leiðbeininga um sóttvarnir skal bent á eftirfarandi; að tiltekinn starfsmaður annist samskiptin við börnin fyrir fyrirtækið, að börnin syngi utandyra, að einungis sérinnpakkað sælgæti sé boðið og það sé afhent hverju barni í stað þess að öll börn fari með hönd ofan í sama ílátið,“ segir í leiðbeiningunum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.