Samkaup fundar með Norðfirðingum um verslunarmál í janúar

Forsvarsfólk Samkaupa hafa boðað komu sína austur til Norðfjarðar í janúar til að ræða framtíðarfyrirkomulag verslunar þar. Undirskriftalisti hefur verið í gangi með beiðni þar um. Forsvarsmaður undirskriftasöfnunarinnar segir íbúa vilja leita leiða til að lækka verð á innkaupum.

Um 400 manns skrifuðu nafn sitt á listann sem legið hefur frammi í nokkrum fyrirtækjum í Neskaupstað síðustu vikur.

„Við óskuðum eftir að fá að ræða framtíðarfyrirkomulag verslunar, hvaða möguleikar séu til staðar í henni, við forsvarsmenn Samkaupa,“ segir Guðröður Hákonarson, sem farið hefur fyrir undirskriftasöfnuninni.

Samkaup reka Kjörbúðina, einu dagvöruverslunina í bænum. „Það er ekkert leyndarmál að það er ákveðin óánægja með fyrst og síðast vöruverðið. Þess vegna viljum við kanna hvort möguleiki sé að fá ódýrari verslun. Við vitum að talsvert af fólki fer héðan til að versla í lágvöruverslunum í kringum okkur,“ segir hann.

„Samkaup hefur ávallt lagt áherslu á að þjónusta landsbyggðina vel og vera fyrsti kostur fólks í heimabyggð. Við erum ánægð að fá tækifæri að ræða við íbúa Norðfjarðar hvernig betur megi mæta þeirra þörfum og kröfum með Kjörbúðinni. Við einsetjum okkur að hlusta á samfélögin sem við störfum í og erum tilbúin að mæta ákalli Norðfirðinga um nánara samtal,“ segir í svari Gunnar Lífar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.

Guðröður fagnar því að fyrirtækið sé tilbúið að koma til fundarins. „Ég er ánægður með að þau séu tilbúin að koma og hlakka til að fá þau. Vonandi verður skynsamleg umræða um málið þannig það náist sameiginleg niðurstaða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.