Sækja kolmunna meðan engin loðna finnst

Öll skip Eskju eru tilbúin til kolmunnaveiða og tvö þegar farin á miðin á hinu alþjóðlega Rockall svæði. Reynt er að nýta tímann til að veiða kolmunna á meðan engin loðna finnst.

Jón Kjartansson kom á miðin í morgun eftir þriggja sólarhringa siglingu og hefur í dag verið að leita undan suðvesturströnd Írlands við landhelgislínuna. Að sögn Baldurs Marteins Einarssonar, útgerðarstjóra Eskju, hefur enn verið lítið að hafa.

Aðalsteinn Jónsson er á leið á miðin og Jón Kjartansson eldri og Guðrún Þorkelsdóttir eru tilbúin að fara á miðin ef veiðist. „Ef fiskurinn gefur sig þá er yfirleitt mokveiði á þessu svæði,“ segir Baldur.

Skipin freista þess að veiða sem mest af kolmunnakvóta Eskju á meðan beðið er eftir að loðna finnist innan íslensku lögsögunnar. Þá eru heldur ekki komnir á samningar um veiðar á kolmunna innan færeysku lögsögunnar, sem austfirsku skipin hafa sótt í síðustu ár enda styttra að fara.

Kolmunnaveiðar eru yfirleitt stundaðar á Rockall svæðinu í febrúar og fram í miðjan mars. Skip Eskju hafa sótt þangað síðustu ár, Jón Kjartansson eldri og Guðrún voru þar við veiðar í fyrra en hin skipin tvö fóru að loknum loðnuveiðum. Kolmunnaveiðin þá var nánast búin.

Nú er þess freistað að veiða kolmunnann á meðan enn er leitað að loðnu í íslensku lögsögunni. Loðnuleit hefur staðið yfir nánast frá áramótum og tók Aðalsteinn Jónsson þátt í henni í byrjun í tólf daga.

Í fyrra hófst loðnuveiði Eskju um miðjan janúar en aðalvertíðin er yfirleitt í febrúar og fram í miðjan mars. „Það er ekki bjartsýni á að það verði mikið af loðnu en vonast eftir einhverju,“ svarar Baldur, aðspurður um stöðuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.