Rýmingu aflétt á Eskifirði

Rýmingu hefur verið aflétt á Eskifirði en ríflega 160 manns þurftu að yfirgefa heimili sín þar síðdegis föstudags vegna skriðuhættu undir veginum upp í Oddsskarð.

Í tilkynningu almannavarna segir að mikil hreyfing hafi verið á tveimur stöðum í Oddsskarðsveginum á fimmtudag og sprungur opnast.

Frá í gær hefur verið lítil hreyfing og ekki eru vísbendingar um að stórt svæði hafi verið á hreyfingu. Oddskarðsvegur verður þó lokaður eitthvað áfram. Þá falla úr gildi fyrri tilmæli um að fólk gæti varúðar við Grjótá og Lambeyrará.

Opinn rafrænn íbúafundur er fyrirhugaður á þriðjudag með lögreglustjóra, bæjarstjóra Fjarðabyggðar og fulltrúa Veðurstofu. Upplýsingar um tímasetningu verður send síðar.

Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, hefur aflýst hættustigi almannavarna og aflétt rýmingu á Eskifirði. Fjöldahjálparstöð Rauða kross Íslands í Eskifjarðarkirkju hefur verið lokað.

Óvissustig almannavarna vegna skriðuhættu er enn í gildi á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.